Skoðun

Krím – geymt en ekki gleymt

David Lidington skrifar
Nú eru tvö ár liðin frá því rússnesk stjórnvöld settu á svið ólöglega og ólögmæta „þjóðaratkvæðagreiðslu“ á Krím. Þessi skrípa-atkvæðagreiðsla hafði lítið með lýðræði að gera; efnt var til hennar í miklum flýti, á aðeins tveimur vikum, og fór fram með rússneska hermenn með alvæpni hvarvetna. Engir alþjóðlegir kosningaeftirlitsmenn fengu að fylgjast með því hvernig að atkvæðagreiðslunni var staðið. Hún var liður í fyrirfram ákveðinni atburðarás sem endaði með innlimun Krímskaga í Rússland. Þetta var í fyrsta sinn í marga áratugi að landamærum í Evrópu var breytt með valdi.

Þetta var hreint og klárt landrán. Með því að innlima ólöglega úkraínskt land, vanvirða friðhelgi landamæra Úkraínu og stuðla auk þess leynt og ljóst að óróa í austurhéruðum Úkraínu brutu rússnesk stjórnvöld alvarlega gegn alþjóðalögum. Langstærstur hluti alþjóðasamfélagsins hefur fordæmt þessar aðgerðir. Bretland viðurkennir ekki innlimun Krím í Rússland, og mun ekki gera það.

Við Bretar munum heldur ekki gleyma þjáningum þeirra sem hafa orðið fyrir barðinu á ofbeldi Rússa, svo sem þjóðernisminnihlutahópar á Krím, ekki síst Krím-tatarar. Andspænis vaxandi ofsóknum og kúgun af hálfu rússneskra yfirvalda hafa um 10.000 Krím-tatarar flúið heimahaga sína síðan í mars 2014.

Innlimun Krím í Rússland var brot á margvíslegum alþjóðlegum skuldbindingum, svo sem stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna, Helsinki-sáttmála ÖSE og samningnum sem gerður var árið 1997 milli Rússlands og Úkraínu, sem festi í sessi landamæri ríkjanna eftir upplausn Sovétríkjanna og stöðu rússneska Svartahafsflotans og aðstöðu hans í Sevastopol.

Aðgerðir sem þessar grafa undan sameiginlegu öryggi í Evrópu; öryggi sem hefur verið byggt upp á löngum tíma á grunni gagnkvæms skilnings, trausts og sameiginlegra gilda. Þetta kallar á að við spyrnum fast við fótum gegn þessari hættulegu hegðun Rússa og bregðumst við af þeirri alvöru og ákveðni sem viðfangsefnið krefst.

Þetta útheimtir líka að við eflum fælingarmátt sameiginlegra varna Atlantshafsbandalagsins með því að taka ákvarðanir á næsta leiðtogafundi bandalagsins í Varsjá í sumar um að styrkja varnarviðbúnað þess í Austur-Evrópu.

Þetta þýðir líka að viðhalda þvingunaraðgerðum gegn Rússlandi, í því skyni að beita stjórnvöld þar í landi áfram viðeigandi þrýstingi um að breyta um stefnu.

Og þetta þýðir ennfremur að við verðum að veita þeim löndum sem verða fyrir ógnunum og inngripum Rússa viðeigandi stuðning, bæði pólitískan og praktískan.

Við verðum að senda einföld, skýr og samróma skilaboð til Rússa – að ekkert land, hversu stórt og öflugt sem það er, geti komist upp með að virða alþjóðalög að vettugi.

Ólögleg innlimun Krím í Rússland var ofbeldisaðgerð. Andspænis slíku ofbeldi verðum við að standa sameinuð til varnar okkar sameiginlegu gildum.




Skoðun

Skoðun

76 dagar

Erlingur Sigvaldason skrifar

Sjá meira


×