Innlent

Allar loftlínurnar lagðar í jörð

Svavar Hávarðsson skrifar
Þegar hefur verið skipt út yfir 4.000 kílómetrum af loftlínum.
Þegar hefur verið skipt út yfir 4.000 kílómetrum af loftlínum. Mynd/RARIK
RARIK ohf., sem er hlutafélag í eigu ríkisins, ætlar á næstu 20 árum að endurnýja allt dreifikerfi sitt með jarðstrengjum og skipta út ríflega 4.000 kílómetrum af loftlínum á þeim tíma. Félagið hefur fjármagnað fyrsta áfanga þessa átaks sem mun ljúka árið 2020.

Ólafur Hilmar Sverrisson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs RARIK, segir það ekki hafa farið hátt að vinna við að skipta loftlínum út fyrir jarðstrengi í dreifikerfi fyrirtækisins hófst fyrir um tuttugu árum.

„Á þeim tíma kom að þeim skurðpunkti að kostnaður við að leggja loftlínur og jarðstreng á þeirri spennu sem við erum að vinna með, varð jafnhár. Síðan hefur kostnaður við að leggja jarðstrengi verið lægri en að byggja loftlínur,“ segir Ólafur en dreifikerfi fyrirtækisins er á mun lægri spennu en flutningskerfi Landsnets sem hefur verið mikið í umræðunni en kostnaðarmunur loftlínu og jarðstrengs eykst eftir því sem spennan er hærri.

Í vikunni var undirritaður lánasamningur milli RARIK og Norræna fjárfestingarbankans (NIB) að andvirði þriggja og hálfs milljarðs íslenskra króna [25 milljónir evra] til að fjármagna fyrsta áfanga endurnýjunar dreifikerfisins sem ljúka á árið 2020. Það nær til rúmlega 1.200 kílómetra af loftlínum en dreifikerfi fyrirtækisins er um 8.700 kílómetrar þegar allt er talið. RARIK hefur þegar lagt 55% af dreifikerfi sínu í jörð, þannig að ríflega 4.000 kílómetrar eru eftir. Að loknum fyrsta áfanga árið 2020 verða um 2.800 kílómetrar í loftlínukerfi RARIK, sem á fimmtán árum verður jafnt og þétt lagt í jörð. Með þessum framkvæmdum á að draga úr truflunum og rafmagnsleysi vegna veðurs og draga úr viðhaldsþörf.

Ólafur Hilmar Sverrisson
Ólafur líkir dreifikerfi RARIK við háræðanet, og er það dreift um allt land. Um 1995 hófst vinna við að skipta út þeim loftlínum sem ollu mestum vandræðum – truflunarskráning sýndi hvar mesta ísingarhættan var og verstu veðrin. Á þeim svæðum var loftlínum fyrst skipt út. Í dag er hægt að horfa til annarra svæða þar sem enn eru truflanir en í minni mæli en á þeim hluta dreifikerfisins sem mestar truflanir hafa verið sögulega.

„Eitt af því sem kemur inn í þá mynd eru fuglar sem fljúga á línurnar, en á vissum árstímum er það að valda truflunum,“ segir Ólafur og nefnir Suðurlandið sem dæmi. „En svo er það auðvitað líka aldur línanna sem er alltaf í skoðun – bæði árlega og til lengri tíma litið.“

Sjónræni þátturinn skiptir hér líka miklu máli. Hluti af loftlínunum hafa verið svo lengi í notkun að almenningur veitir þeim kannski ekki mikla athygli. Ólafur segir skipta miklu í umhverfislegu tilliti að geta skipt þeim út fyrir jarðstrengi, sem sýni að loftlínur eru afturkræfar framkvæmdir.

Síðasta stóra tjónið var í 7. desember veðrinu

Áætlaður heildarkostnaður RARIK vegna tjóna í óveðrinu 7. – 8. desember 2015 er á milli 70 og 80 milljónir.

Alls brotnuðu 70 staurar í veðrinu, nokkrar slár og vírslit, auk ýmissa smærri bilana, en 17 staurar brotnuðu í Blönduhlíð í Skagafirði, 12 staurar brotnuðu í línum í Öxarfirði og 19 staurar brotnuðu í Víkurlínu. Auk þess brotnuðu stakir staurar vítt breitt um landið, að undanskildu Austurlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×