Skoðun

Konur vanmetinn fjárfestingarkostur

Brynhildur S. Björnsdóttir skrifar
Samkvæmt skýrslu UN Women frá árinu 2015 vinna konur í öllum heimshornum meira en karlar en þéna um leið mun minna. Ofan á það sem þær vinna á vinnumarkaði, vinna þær næstum tvisvar og hálfu sinnum meiri ólaunaða vinnu á heimilum en karlar. Launamunurinn á heimsvísu er um 24% en þegar tekið er tillit til barneigna er hann mun meiri. Konur í Frakklandi og Svíþjóð sem kjósa að eignast börn mega t.a.m. eiga von á að þéna 31% minna en karlar um ævina.

Samkvæmt Global Entrepreneur­ship Monitor um íslenskt frumkvöðlaumhverfi eru karlar helmingi fleiri en konur í frumkvöðlastarfsemi. Þá er það þekkt stærð að kvenfrumkvöðlar hafa takmarkaðra aðgengi að fjármagni og fjárfestum en karlar um allan heim. Samkvæmt nýlegum rannsóknum í Bretlandi eru karlmenn t.a.m. 80% líklegri til að fá framtaksfjárfesta (VC) til að fjárfesta í viðskiptahugmynd sinni en konur og 60% líklegri til að fá fjármagn frá englafjárfestum. Á heimsvísu hljóta karlfrumkvöðlar sex sinnum meiri nýsköpunarstyrki úr hinum ýmsu sjóðum. Það ætti því ekki að koma á óvart að konur stjórni aðeins um 30% af fjármagni sem kemur úr einkarekstri í heiminum.

Þrátt fyrir allar þessar hindranir eru konur enn að stofna fyrirtæki á heimsvísu – og það á mun meiri hraða en karlar. Jafnvel þó þær fái aðeins 7% af framtaksfjárfestingu (venture capital) á heimsvísu og 5% af bankalánum í tengslum við viðskiptahugmynd og fyrirtækja­rekstur.

Það ætti því ekki að koma á óvart að samkvæmt Global Entrepren­eurship Monitor komast konur af með mun minna í start-upi og frumkvöðlastarfsemi en karlar. Þær þurfa ekki nema helming af því fjármagni sem karlar nota að meðaltali í start-up á fyrirtækjum. Enda alvanar að vinna meira en þéna minna. Svo ekki sé talað um að púsla saman vinnu og 2,5 sinnum meiri vinnu á heimilinu (og nú er ég enn þá að tala um á heimsvísu).

Framtíðaráhrif kvenfrumkvöðla í heiminum eiga sér greinilega engin takmörk. Konur á Íslandi eru með hærra menntunarstig og líklegri til að takast ætlunarverk sín í start-upi með minni pening milli handanna en karlar. Sem gerir þær frábæran fjárfestingarkost.

Það er bara kominn tími til að strákarnir með fjármagnið fatti það.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×