Guðrún Björg Ingimundardóttir er kennari hjá alþjóðlegum skóla í Gabon, Ecole Ruban Vert. Hún og kenískur samkennari hennar stofnuðu alþjóðlegan skátaflokk fyrir stelpur í skólanum.

„Það er virk skátahreyfing í Gabon en hún er ekki jafn opin öllum eins og á Íslandi,“ segir hún en hún telur að hreyfingin í Gabon sé mun kynjaskiptari og kristnari en þekkist á Íslandi.
„Sérstaðan hjá okkur er að stelpurnar í skátaflokknum okkar eru alls staðar að. Við erum með stelpur frá Gabon, Bandaríkjunum, Líbanon, Nígeríu og Frakklandi. Það er ekki til í landinu, svo ég viti, skátafélag sem tekur á móti krökkum alls staðar að.“
Eins og fram hefur komið er einn af þáttunum að kenna stelpunum að koma fram við umhverfið af virðingu en ekki síður að efla sjálfstraust þeirra.
„Við leggjum mikla áherslu á það að stelpurnar beri virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum. Það felur í sér að þær verði sjálfstæðir einstaklingar.“
Til að mynda kenna þær yngstu stelpunum að elda og sauma, ekki til að þær alist endilega upp til að verða húsmæður heldur til að þær geti staðið á eigin fótum.
„Það helst í hendur við það að gera þetta á þann hátt að valda ekki umhverfinu skaða. Við lærum að endurvinna hráefni og rusl. Við viljum skilja við heiminn betri en við fundum hann,“ segir Guðrún.