Skoðun

Heimilislaus heilaskaði?

Dís Gylfadóttir skrifar
Breyttur persónuleiki, einbeitingarskortur, skert hæfni til samskipta, flog, þreyta. Þetta eru einungis nokkrar afleiðingar ákomins heilaskaða. Slysin gera ekki boð á undan sér og það er óhugnanlegt að hugsa til þess að framangreint geti komið fyrir hvern sem er, hvenær sem er. En staðreyndin er sú að um 80 manns á ári fá svo alvarlegan heilaskaða að þau þurfa að læra á lífið á nýtt.

Marsmánuður er um allan heim tileinkaður fólki með heilaskaða. Það er ekki að tilefnislausu. Þekkingunni innan heilbrigðisgeirans, félagslega kerfisins, hjá stjórnvöldum og meðal almennings á þessum þögla faraldri er afar ábótavant. Endurhæfing snýr að líkamlegri getu en afleiðingar sem ekki sjást utan á fólki gleymast. Fólk er útskrifað og skilið eftir án fræðslu, stuðnings eða skilnings á þeim áhrifum sem heilaskaði hefur á líf þess. Ógerlegt er fyrir aðstandendur að átta sig á þessum breytta einstaklingi sem oft verður til þess að hann ýtir fólki frá sér og einangrast félagslega.

Engin stefna til í málaflokknum

Á Íslandi verða um 500 manns fyrir einhvers konar heilaskaða árlega. Stór hluti er ungt fólk og ef ekki fæst viðeigandi meðferð og stuðningur er aukin hætta á áhættuhegðun og vandamálum, svo sem brotthvarf úr námi eða vinnu og að missa fótanna í lífinu. Þrátt fyrir þetta er ekki til nokkur stefna í málaflokknum og stjórnmálamenn taka undir það að þessi hópur hafi einfaldlega gleymst í kerfinu. Engin langtímaendurhæfing er í boði og við erum 20-30 árum á eftir Norðurlöndunum.

Nauðsynlegt er að taka á þessum málum. Skapa þarf umræðu um stöðu þessa hóps og finna leiðir til endurbóta. Við viljum sjá stefnumótun fara í gang hjá stjórnvöldum og erum boðin og búin til að aðstoða eftir fremsta megni. Einnig viljum við koma á fót Höfuðhúsi, samastað fyrir fólk með heilaskaða, þar sem hægt væri að nálgast langtímaendurhæfingu og fræðslu, sem ekki er í boði í dag. Lífi sem er bjargað verður að vera gefið tækifæri til að lifa.




Skoðun

Sjá meira


×