Innlent

Dýralæknir veitir góð ráð fyrir gamlárskvöld

nína hjördís þorkelsdóttir skrifar
Bæði gæludýr og húsdýr geta orðið skelfingu lostin vegna flugeldaskota.
Bæði gæludýr og húsdýr geta orðið skelfingu lostin vegna flugeldaskota. vísir/getty
Þóra Jónasdóttir dýralæknir deildi góðum ráðum til dýraeigenda í Bítinu á Bylgunni í morgun. Áramótin eru á næsta leiti en mörg dýr eiga erfitt uppdráttar vegna flugeldaskota. Þóra brýndi fyrir dýraeigendum að byrja snemma á að gera ráðstafanir, hlúa vel að dýrum sínum og passa að halda þeim inni meðan mestu lætin dynja yfir.

Útidýr geta líka fælst

Að sögn Þóru geta öll dýr orðið skelkuð vegna ljós- og hávaðamengunar sem fylgir flugeldaskotunum. „Við verðum bara að horfast í augu við það að áramótin eru mjög erfiðir tímar fyrir öll dýr,“ segir hún og bendir á að sérstaklega þurfi að gæta að dýrum sem hafast við utandyra. „Það er um að gera að hafa dýr sem eru úti á stað sem þau þekkja, gefa þeim vel og passa að vitja þeirra.“

Hestar sem ekki eru í hesthúsum geta til að mynda auðveldlega fælst. „Hestarnir eru flóttadýr. Þegar þeir sjá eitthvað eða heyra sem hræðir þá, er þeirra fyrsta viðbragð að hlaupa,“ segir Þóra. Hestar eiga það til að hlaupa á ýmislegt þegar þeir eru í slíkum ham, til dæmis ofan í skurði eða á girðingar.

Þóra bendir á að núna séu hesthúsahverfin komin mjög nálægt byggð og fólk fer því í útreiðartúra nánast inni í mannabyggðum. „Samkvæmt reglugerð er óheimilt að skjóta upp flugeldum allt árið um kring, nema milli 27. desember og 6. janúar. Það myndi hjálpa mikið ef fólk fylgdi þessari reglugerð.“

Hestar sem eru í hesthúsum þurfa einnig alúð. „Varðandi hesta sem eru í hesthúsum, þá er um að gera að byrgja glugga, hafa ljós, hafa músík og gefa þeim vel.“

Best er að byrja aðlögunina snemma

Samkvæmt Þóru er mikilvægt að undirbúa gæludýr vel fyrir lætin á gamlárskvöld og reyna að hlífa þeim.

„Til dæmis er best að reyna að halda köttum algjörlega inni. Það er of seint að ná þeim þegar þeir eru búnir að fela sig eitthvað og kannski hlaupnir langt í burtu,“ segir hún.

Lengi hefur tíðkast að gefa gæludýrum róandi lyf yfir áramótin. Hún segir að þessi lyf hafa þróast til hins betra á síðustu árum. „Það eru komin betri kvíðadempandi lyf en þessi sljóvgandi og jafnvel hreyfihamlandi lyf sem áður voru. Dýr sem höfðu fengið þessi lyf voru kannski sljó en hugsanlega alveg jafn hrædd. Þau gátu ef til vill ekki hreyft sig en upplifðu kannski alveg jafn mikla hræðslu.“

Auk þess sé grundvallaratriði að hafa dýr ekki laus. „Ég veit þess dæmi að hundur hafi hlaupið upp í fjöll á gamlárskvöld. Það tók nokkra daga að finna hann,“ segir Þóra.

Þóra segir að það sé ekki alltaf nauðsynlegt að gefa gæludýrum róandi lyf.

„Maður byrjar yfirleitt ekki á því að gefa dýri kvíðadempandi lyf dýri í fyrsta skipti því maður veit ekki hvernig það bregst við. Maður reynir hins vegar að vera alltaf með því. Ef maður hefur þá reynslu að dýrið sé hrætt, þá er um að gera að byrja aðlögunina nógu snemma, jafnvel að hausti,“ segir Þóra.

Undirbúningurinn getur verið með ýmsu móti, til dæmis er hægt að nálgast hljóðupptökur af hvellhettuhljóðum og spila þau fyrir dýrið, með lágum hljóðstyrk til að byrja með. Þóra bendir einnig á að til séu róandi ferómón sem hægt sé að setja á hálsólar dýranna og innstungur og þannig skynji dýrin á heimilinu róandi lykt.

Varðandi kvíðadempandi lyf, þá þarf undirbúningur einnig að hefjast talsvert fyrir áramót. Fólk ætti að nálgast slík lyf fyrir dýrin sín strax í dag, ef það hefur ekki enn orðið sér úti um þau.

„Þrátt fyrir lyfin þá þarf maður að hlúa vel að dýrunum og passa upp á þau á gamlárskvöld,“ segir Þóra og leggur áherslu á að þau kunni að vera kvekkt jafnvel þrátt fyrir lyfin.

Nánari leiðbeiningar má finna á vef Matvælastofnunar og vef Flugeldamarkaða Björgunarsveitanna




Fleiri fréttir

Sjá meira


×