Formúla 1

Bílskúrinn: Einvígið í Abú Dabí

Kristinn Ásgeir Gylfason skrifar
Mercedes liðið fagnar góðum árangri.
Mercedes liðið fagnar góðum árangri. Vísir/Getty

Nico Rosberg, ökumaður Mercedes liðsins varð heimsmeistari ökumanna með því að koma annar í mark í Abú Dabí. Liðsfélagi hans og fyrrum heimsmeistari, Lewis Hamilton gerði allt sem hann gat til tryggja sér titilinn en allt kom fyrir ekki.

Hvernig varðist Hamilton? Er Rosberg verðugur heimsmeistari? Kveðjustund fyrir Felipe Massa og Jenson Button. Þetta og margt fleira í Bílskúrnum, uppgjöri hvers kappaksturs hér á Vísi.

Rosberg var kátur eftir keppnina. Vísir/Getty

Er Rosberg verðugur heimsmeistari?
Hefur Nico Rosberg gert nógu mikið til að eiga titilinn eftirsótta skilið? Já er stutta svarið að mati blaðamanns.

Rosberg kom til Mercedes liðsins á jómfrúartímabili þess í Formúlu 1 árið 2010. Hann hefur verið afar mikilvægur þáttur í stíganda liðsins og einokun á ráspólum og verðlaunapöllum, heimsmeistaratitlum og þar af leiðandi verðlaunafé síðustu árin.

Einhverjar raddir hafa heyrst um að Rosberg eigi ekki skilið að verða meistari vegna þess að Hamilton hafi lent í meiri vélavandræðum en Rosberg í ár. Rosberg verður ekki kennt um það og hann getur ekki borið ábyrgð á bilunum liðsfélaga síns.

Rosberg gerði allt sem hann þurfti til að tryggja sér meistaratitilinn. Hann þurfti að komast á pall að því gefnu að Hamilton ynni keppnina og það gerði hann. Kom í mark annar á eftir Hamilton, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir Bretans til að bakka Rosberg niður í vandræði gagnvart Max Verstappen og Sebastian Vettel.

Framúrakstur Rosberg á Verstappen verður lengi í minnum hafður sem einn sá svakalegasti. Með titilinn á línunni tók Rosberg fullt af sénsum. Hann komst að endingu fram úr en það munaði litlu að þeir snertust á brautinni. Framúrakstur sem sæmir heimsmeistara.

Hamilton, Rosberg, Vettel og Verstappen koma í mark. Vísir/Getty

Hvernig varðist Hamilton?
Hamilton leiddi keppnina frá ræsingu til endamarks, að undanskildum nokkrum hringjum í kringum þjónustuhlé.

Hamilton reyndi allt hvað hann gat til að gera Rosberg erfitt fyrir að komast fram úr sér og gott betur en það. Varnartilburðir Hamilton voru þvert á það sem hann hafði sagt fyrir keppnina.

Hann reyndi raunar að tefja Rosberg svo Vettel og Verstappen sem voru í þriðja og fjórða sæti gætu komist á milli og fækkað stigum Rosberg í keppninni.

Hamilton hefði orðið heimsmeistari ef honum hefði tekist að koma báðum bílunum á milli sín og Rosberg. En það tókst ekki, Rosberg ók einkar vel og tryggði sér titilinn.

Mercedes-menn á þjónustusvæðinu voru allt annað en rólegir yfir aksturslagi Hamilton. Meira að segja Paddy Lowe, tæknistjóri Mercedes sagði Hamilton að auka hraðann, þá er málið orðið alvarlegt. Skipanir innan Mercedes liðsins á brautinni koma ekki frá hærri stöðum en Paddy Lowe.

Liðsstjóri Mercedes, Toto Wolff sagði eftir keppnina að hann skyldi akstur Hamilton en á hinn bóginn var fyrsta sætið í hættu að mati liðsins og því var Hamilton ekki að sinna hagsmunum liðsins eftir bestu getu.

Paddy Lowe og Lewis Hamilton hafa átt betri stundir saman en yfir talstöðina í Abú Dabí. Hér fagna þeir í Bandaríkjunum. Vísir/Getty

Hvernig verður tekið á Hamilton eftir varnaraksturinn?
Ætli fyrrum heimsmeistara verði refsað fyrir athæfið? Rosberg hefur sjálfur sagt að Mercedes eigi að gleyma þessu og fyrirgefa Hamilton aksturslag hans.

Hamilton gæti samkvæmt einhverjum heimildum verið rekinn frá Mercedes liðinu fyrir atvikið. Líkurnar á því eru þó harla litlar að mati blaðamanns. Hamilton er á góðri leið með að verða tölfræðilega einn besti Formúlu 1 ökumaður sögunnar. Hann verður því seint rekinn fyrir atvik í einni keppni, þar sem hann sýndi alla burði til að stýra keppninni og reyna að hafa áhrif á hvað gerðist fyrir aftan hann.

Mercedes hefur gefið út að það muni taka góðan tíma til að mynda sér skoðun á því hvort og þá hvernig Hamilton verði refsað.

Hamilton, Button, Massa og Rosberg. Vísir/Getty

Massa og Button kveðja Formúlu 1
Felipe Massa sem var heimsmeistari í nokkrar sekúndur í heimalandi sínu í Brasilíu 2008, þangað til Hamilton stal titlinum, er hættur í Formúlu 1.

Massa kvaddi á góðum nótum og var glaður að hafa geta barist fram á síðasta hring.

Jenson Button hins vegar varð heimsmeistari með Brawn liðinu árið 2009. Hann er hættur í Formúlu 1 líka, í bili að minnsta kosti.

Button er með samning við McLaren liðið út 2018 þar sem hann gæti verið kallaður til, til að aka fyrir liðið ef á þarf að halda. Hann sagði þó um keppnina um helgina að hann myndi tækla hana sem sína síðustu.

Endalok ferilsins voru ekki eins og Button hefði óskað sér. Fjöðrunin á McLaren bílnum hans gaf sig snemma í keppninni og Button þurfti að hætta keppni.

Þessara tveggja ökumanna verður saknað úr Formúlu 1 en brotthvarf þeirra úr íþróttinni opnar möguleika fyrir nýja ökumenn til að setja sitt mark á Formúlu 1. Stoffel Vandoorne tekur sæti Button hjá McLaren og Lance Stroll tekur sæti Massa hjá Williams.

Verstappen verður í baráttunni um titilinn að mati blaðamanns á næsta ári. Vísir/Getty

Spá blaðamanns fyrir 2017
Miklar breytingar á bílunum eru væntanlegar. Breiðari dekk og breiðari vængir til að nefna það helsta. Það þýðir að loftflæðið mun skipta meira máli en það gerði síðustu þrjú tímabil.

Goggunarröðin veðrur líklega endurstillt að nokkru leyti svo það verður afar áhugavert að fylgjast með hvernig staða liðanna þróast innbyrðis.

Sterkasta hlið Red Bull liðsins hefur verið vel hönnuð yfirbygging og gott loftflæði sem þýðir mikið niðurtog.

Max Verstappen, ökumaður Red Bull liðsins hefur sýnt í síðustu keppnum að hann er efni í heimsmeistara. Ofanritaður spáir því að Verstappen blandi sér í baráttuna um heimsmeistaratitilinn á næsta ári. Takist Red Bull að hanna bíl sem getur skákað Mercedes þá verður Verstappen líklega heimsmeistari. Hann er svo góður.

Vonandi getur Ferrari liðið ásamt Mercedes og Red Bull blandað sér í baráttuna og ekki væri verra að sjá McLaren hætta að þjást eins mikið og það hefur verið að gera undanfarin ár. Vonandi verður næsta tímabil jafn spennandi og keppnin sem fór fram í Abú Dabí. Látum okkur hlakka til.


Tengdar fréttir

Herra og frú heimsmeistari

Nico Rosberg tryggði sér í gær heimsmeistaratitilinn í formúlu eitt í fyrsta sinn með því að ná öðru sæti í lokakappakstrinum í Abú Dabí.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.