Skoðun

Áminning til stjórnmálamanna – fjármagn til heilbrigðismála

Jakob S. Jónsson skrifar
Fyrir nokkru sá læknirinn minn að ég þyrfti að fara í einfalda aðgerð sem framkvæmd er í Hjartagáttinni á Landspítalanum. Þegar verið var að búa mig undir aðgerðina uppgötvaðist að vantaði blóð í kappann og nauðsynlegt að bregðast við því, sem starfsfólk Hjartagáttar og gerði, en sem kallaði á flóknara ferli. Sjúklingurinn skyldi magaspeglaður til þess að reyna að komast fyrir um ástæður blóðlekans og síðan blóði bætt á kerfið; tók sú aðgerð um það bil sólarhring allt með öllu. Svo var hin upphaflega aðgerð framkvæmd samkvæmt áætlun og alls stóð heimsókn mín á Hjartagáttina í tæpa tvo sólarhringa. Komandi eftirlit mun leiða í ljós hvort þessi saga fái ekki hamingjusamlegan endi.

Ef það veltur á starfsfólki Landspítalans, þá er lítið að óttast. Þar er að finna atvinnumann í hverju rúmi, hvort sem litið er til starfsfólks í býtibúri, sjúkraliða, hjúkrunarfræðinga eða lækna. Um það bil tuttugu til þrjátíu starfsmenn komu að mér þá tvo sólarhringa sem ég lá inni og hver einasti þeirra mætti mér af alúð og metnaði til að gera vel.

Ég fékk þá bestu þjónustu sem hugsast gat, en starfsfólkið var að niðurlotum komið vegna álags. Það var á hlaupum, að flýta sér frá einum sjúklingi til annars, frá einu verkefni til hins næsta. Og reyndi hvað það gat að láta ekki á asanum bera. Þetta var álag sem hefði ekki talist boðlegt á neinum vinnustað, hvað þá þar sem þiggjendur þjónustu eru háðir því að starfsfólki líði vel og finnist það hafa tíma og aðbúnað til að sinna starfinu eins og sæmir metnaði þess og fagmennsku.

Blygðunarlaus árás

Það þarf greinilega að minna á hve mikilvæga þjónustu starfsfólk Landspítalans innir af hendi. Þarna komum við, sjúklingar, með eymsli okkar og áhyggjur – svo ekki sé talað um ótta við að vera í lífshættu! – og starfsfólkið mætir okkur af fagmennsku, umhyggjusemi og lipurð. Það gefur sér tíma til að hlusta, það mætir hverjum sjúklingi á hans eigin forsendum, því er umhugað um að skapa öryggi og frið í sál sjúklingsins og búa hann þannig undir að takast á við að ná heilsu.

Starfsumhverfi fagfólks Landspítalans hefur nánast verið rústað með stöðugum niðurskurði í fjárveitingum hins opinbera – í fjárhagsáætlun ríkisins eru framlög til heilbrigðismála enn skorin niður, sem er ekkert nema blygðunarlaus árás á þetta frábæra fagfólk!

Er til of mikils mælst að stjórnmálamenn sjái til þess að heilbrigðiskerfið fái það fjármagn sem þarf til að það geti staðið undir væntingum starfsmanna og þörfum sjúklinga? Hvað þarf til að stjórnmálamenn sýni af sér sömu fagmennsku og starfsfólkið okkar í heilbrigðiskerfinu?

 

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

Vertu drusla!

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir skrifar

Skoðun

Ert þú drusla?

Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir,Elísa Rún Svansdóttir,Lilja Íris Long Birnudóttir,Lísa Margrét Gunnarsdóttir,Margrét Baldursdóttir,Silja Höllu Egilsdóttir skrifar

Sjá meira


×