Viðskipti innlent

Mýrdalshreppur: Ákvörðun um hótel kínversks fjárfestis frestað

Atli Ísleifsson skrifar
Vík í Mýrdal.
Vík í Mýrdal. Vísir/heiða helgadóttir
Sveitarstjórn Mýrdalshrepps ákvað á fundi sínum í gær að fresta afgreiðslu á umsókn kínverska fjárfestisins Xinglin Xu um lóðir undir hótel í austurhluta Víkur.

Í fundargerð segir að fjárfestirinn vilji byggja áttatíu til hundrað herbergja þriggja stjörnu hótel með veitingasal. „Í umsókninni er gert ráð fyrir því að fyrstu allt að tvö árin verði 20 herbergi hótelsins nýtt fyrir starfsfólk, eða þar til búið verður að sækja um lóð til að byggja varanlega aðstöðu fyrir starfsfólk.“

Sveitarstjórn hefur átt fund með Xinglin Xu þar sem farið var yfir áform um uppbygginguna. Þar sem fleiri en ein umsókn hefur borist sveitarstjórn um umræddar lóðir var ákveðið fresta afgreiðslu umsóknarinnar og óska eftir skýrari og ítarlegri greinargerð frá umsækjanda um fyrirhugaða framkvæmd, framkvæmdatíma, rekstrarfyrirkomulag, fjármögnun verkefnisins, mönnun og húsnæðismál væntanlegra starfsmanna.

Í fundargerð kemur fram að Eva Dögg Þorsteinsdóttir, fulltrúi M-listinn,  telji mikilvægt að sveitarstjórn hraði vinnu við stefnumörkun svæðisins bæði út frá hagfræðilegu og félagsfræðilegu sjónarhorni. Þannig geti sveitarstjórn tekið upplýsta ákvörðun.

Xinglin Xu hefur verið búsettur á Íslandi um nokkurt skeið og rekur hér ferðaþjónustufyrirtæki.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×