Skipasamgöngur Grænlands hafa enn á sér nýlendubrag, eitt skipafélag hefur einokun á flutningunum sem nánast eru allir milli Grænlands og Álaborgar í Danmörku. Grænlensk stjórnvöld, í gegnum skipafélagið, hafa nú ákveðið að tengjast flutningakerfi Eimskips í staðinn; um Reykjavík, Þórshöfn í Færeyjum og Århus, en stefnt er að því að ljúka samningum fyrir áramót á grundvelli viljayfirlýsingar Royal Arctic Line og Eimskips frá því í vor.

„Grænlendingar líta til okkar miklu meira heldur en Dana, Danaveldis, og mér finnst það bara mjög ánægjulegt,“ segir Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskips, í viðtali í fréttum Stöðvar 2.
Stærsta skrefið er stækkun hafnarinnar í Nuuk en jafnframt hafa Grænlendingar nú sjálfir tekið yfir lykilstöður í stjórn skipafélagsins Royal Arctic Line, sem er alfarið í eigu landsstjórnar Grænlands.

Og sama með afurðir þeirra í sölu, sem er aðallega fiskur. Hann leitar núna á nýja markaði og væntanlega betra afurðaverð; að geta farið beint í tengingu við okkur inn á Bandaríkin,“ segir Gylfi.
Gangi samningarnir eftir verður Eimskip eftir rúm tvö ár komið með stærstu gámaflutningaskip í sögu flotans. Þau verða svo stór að stækka þarf hafnir. Lengja þarf viðlegukant í Sundahöfn í Reykjavík en einnig stækka hafnir í Nuuk og Færeyjum til að taka á móti 180 metra löngum skipum.

„Ef af þessu verður, sem er bara mjög líklegt, - allar viðræður ganga vel, - þá eru þetta fyrstu skrefin sem við erum að taka í endurnýjun skipanna. Skipin verða kannski ekki fleiri að sinna Íslandi en þau verða stærri,“ segir forstjóri Eimskips.