Viðskipti innlent

Flugfélagið fagnar nýjum áfangastað á Grænlandi

Kristján Már Unnarsson skrifar
Forsetafrúin Eliza Reid lýsti sérstakri ánægju með að Grænland skyldi verða fyrsta landið sem hún heimsótti sem forsetafrú Íslands en hún fór til Kangerlussuaq í gær að fagna nýjum áfangastað Flugfélags Íslands. Um leið var öllum skólabörnum bæjarins afhent tafl að gjöf. 

Kangerlussuaq er kannski þekktara sem Syðri-Straumfjörður. Flugvöllurinn þar er sá eini á Grænlandi með áætlunarflugi á stórum þotum og notar Air Greenland hann sem tengivöll milli Kaupmannahafnar og byggða Grænlands. Í vor bætti Flugfélag Íslands honum inn í sitt leiðakerfi yfir sumartímann en fagnaði þessum áfanga í gær og var forsetafrúin meðal gesta.

Bombardier Q400-vél Flugfélagsins, Þórunn hyrna, á flugvellinum í Kangerlussuaq í gær.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
Þar flutti Eliza Reid ávarp þar sem hún fagnaði því sérstaklega að Grænland skyldi verða fyrsta landið sem hún heimsótti sem forsetafrú. Ekki aðeins væri Grænland næsta nágrannaland Íslands heldur væri Kanada, þar sem hún ólst upp, næsta nágrannaland Grænlands á hina hliðina.

Eliza afhenti skólabörnum taflsett að gjöf frá Flugfélaginu og Skákfélaginu Hróknum og síðan tók Hrafn Jökulsson fjöltefli við hópinn.

Forsetafrúin Eliza Reid með taflborð. Grænlensk skólabörn fyrir aftan. Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands, til vinstri, og Jens Borch Scharnberg, skólastjóri í Kangerlussuaq, til hægri.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
Kangerlussuaq er fimmti áfangastaður Flugfélagsins á Grænlandi en hinir eru Ilulissat, Nuuk, Narsarsuaq og Kulusuk, sem var einmitt fyrsti áætlunarstaðurinn fyrir hartnær hálfri öld.

Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Flugfélagsins, segir að náttúran í Kangerlussuaq sé ægifögur og aðgengi gott að Grænlandsjökli. Þar sé stór fjörður, Syðri-Straumfjörður. Hluta dýrðarinnar fékk forsetafrúin að sjá með eigin augum í gær, meira að segja sauðnaut.

Vatnsmikið jökulfljót undan Grænlandsjökli fellur til sjávar í botni Syðri-Straumfjarðar. Flugvöllurinn er við ármynnið.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
Grænlandsflugið er um fjórðungur af veltu Flugfélagsins og farþegahópurinn kemur úr öllum heimsálfum, að sögn Árna.

„Hópurinn sem er að koma hingað er mjög fjölbreyttur og við vorum að sjá töluvert af Íslendingum koma með okkur í sumar. Upplifun þeirra var almennt séð mjög góð og mjög ánægjulegt að sjá það að Íslendingar eru líka að uppgötva Grænland,“ segir Árni.

Þessi sauðnaut mátti sjá skammt utan við bæinn Kangerlussuaq.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.

Tengdar fréttir

Forsetafrúin á Grænlandi

Eliza Reid fór í sína fyrstu utanlandsferð sem forsetafrú Íslands þegar hún fagnaði nýrri flugleið til Grænlands og afhenti grænlenskum börnum taflsett.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×