Skoðun

Höfnum Illugafrumvarpinu

Óskar Steinn Ómarsson skrifar
Fyrir Alþingi liggur frumvarp Illuga Gunnarssonar menntamálaráðherra um breytingar á Lánasjóði íslenskra námsmanna. Hæpið er að frumvarpið verði að lögum fyrir kosningar. Sem betur fer, því frumvarpið felur í sér gríðarlega neikvæðar breytingar á námslánakerfinu.

Með Illugafrumvarpinu munu allir námsmenn eiga rétt á styrk upp á 65 þúsund krónur á mánuði. Frábært, þetta hljómar vel. Loksins styrkjakerfi. En er málið svo einfalt? Nei, auðvitað ekki. Breytingarnar fela einnig í sér að verðtryggðir vextir af námslánum hækka úr einu í þrjú prósent. Þetta gerir lánin dýrari. Þá er tekjutenging afborgana afnumin, sem þýðir að greiðslubyrði þeirra með lág laun hækkar. Þessar breytingar munu éta upp ábatann af styrknum að mestu leyti og koma mörgum námsmönnum illa.

Sem nemandi við Háskóla Íslands hafa viðbrögð Stúdentaráðs háskólans valdið mér miklum vonbrigðum. Formaðurinn fullyrðir að Illugafrumvarpið komi flestum nemendum við HÍ vel. Gott og vel, en hvað um þá hópa sem koma illa út úr hærri vöxtum og afnámi tekjutengingar? Hvað um væntanlega leik-, grunn- og framhaldsskólakennara, hjúkrunarfræðinga, þroskaþjálfa og fjölmargar aðra hópa sem munu þurfa að þola þyngri greiðslubyrði af lánum sínum í nýja kerfinu? Eiga þessir hópar enga málsvara innan meirihluta Stúdentaráðs?

Námsstyrkurinn er keyptur of háu verði. Fórnarkostnaðurinn af þessu frumvarpi er of hár. Það er hægt að tryggja öllum styrk til náms án þess að veikja stöðu barnafólks, fólks með lægri laun, fólks sem fer í nám erlendis og fólks sem af einhverjum ástæðum hefur nám seinna en aðrir.

Innleiðum styrkjakerfi í íslensku menntakerfi, þó fyrr hefði verið. Fórnarkostnaðurinn má hins vegar ekki verða sá að Lánasjóðurinn hætti að vera sá félagslegi jöfnunarsjóður sem hann átti alltaf að vera. Með því að forgangsraða fjármunum til menntakerfisins getum við stórbætt það án þess að fórna öllu þessu. Við námsmenn eigum betra skilið. Höfnum Illugafrumvarpinu og hefjum vinnu við nýtt, réttlátt styrkjafrumvarp strax eftir kosningar.




Skoðun

Sjá meira


×