Skoðun

Hinn breyski spámaður

Stefán Karlsson skrifar
Múhameð er fyrirmynd milljóna múslíma – en líka hryðjuverkamanna.  Ástæðan er sú að hann bjó einnig yfir persónueiginleikum sem einkenndust af stjórnunaráráttu og ofsóknarkennd að dómi þýsk-egypska íslamsérfræðingsins Hamed Abdel-Samad .

Hamed fæddist í Kaíró árið 1972, sonur ímams úr hópi súnníta,.  Á yngri árum starfaði hann í Múslímska bræðralaginu en settist árið 1995 að í Þýskalandi þar sem hann stundaði háskólanám í Erfurt.  Frá árinu 2013 hefur hann orðið að lifa við stöðugar líflátshótanir vegna gagnrýninna skrifa um íslam.  

Hér á eftir er leitast við að kynna inntak nýjustu bókar Hamed, Múhameð – uppgjör, sem kom út 1. október á síðasta ári.

Múhameð og goðsögnin

Hamed segir að margir múslímar séu hugfangnir af goðsagnakenndri persónu Múhameðs sem var uppi á sjöundu öld eftir Krist.  Þessi aðdáunin þeirra á spámanninum birtist í takmarkalausri tilbeiðslu og kröfunni um óskeikulleika hans.

Nærvera hans í menntakerfi og stjórnmálum og yfirdrifin áhersla á trúarlega þáttinn í mörgum íslömskum samfélögum hamli þróun annarra sjónarmiða.  Allt miðist við hann.  Hann sé ríkjandi í hversdagslífi múslímskra borgara, stjórnmálamanna og guðfræðinga.  Þessi tilfinningaþrungnu tengsl og gagnrýnislausa upphafning á spámanninum komi í veg fyrir að fram geti farið sögulega gagnrýnin rannsókn á brautryðjendum íslams. 

Bókarhöfundur segir að í hefðunum komi Múhameð fram sem tveir menn, annars vegar sem siðapostulinn og prédikarinn frá Mekka og hins vegar óumburðalyndi stríðsherrann frá Medína.  Í honum birtist bæði maður sem boði samúð og fyrirgefningu og andlega sjúkur fjöldamorðingi og harðstjóri.

Hamed segir að tilgangur sinn með nýju bókinni sé ekki sá að skrifa enn eina sjálfsævisögu spámannsins heldur finna persónulega leið til að leggja mat á líf hans og starf.  Ekki aðeins út frá gildismati okkar tíma heldur líka út frá siðferðislegum mælikvarða hans eigin tíma.  Því að Múhameð hafi einnig staðið fyrir fordæmalausum illvirkjum út frá sjónarhóli samtíma hans.  Auk þess segist höfundur líka reyna að skilja pólitískar og sálfræðilegar ástæður sem lágu gerðum hans til grundvallar.

Vald og viðurkenning

Hamed segir að sem barn hafi Múhameð hvorki notið ástúðar né umhyggju foreldra sinna og einnig skort fyrirmynd.  Síðan hafi hann gifst ríkri ekkju og starfað sem lestarleiðtogi í fyrirtæki hennar.  Hann hafi efnast vel og virst hamingjusamur.

Á fertugasta aldursári hafi hann lent í tilvistarkreppu.  Hann hafi reikað um í eyðimörkinni, hugleitt í helli, fengið vitranir og fullyrt að steinn vildi tala við hann.  Hann hafi þjáðst af angist og sjálfsmorðshugsunum og byrjað að trúa á opinberun sem honum var send frá himni.

Önnur tímamót í lífi Múhameðs hafi verið flótti hans frá Mekka til Medína.  Í Medína hafi fyrsta múslímska ríkið verið stofnað.  Þar hafi komið fram á sjónarsviðið hinn valdasjúki spámaður sem hafi náð markmiði sínu með dauða og tortímingu.  Eftir valdatökuna hafi áður mikils metnar meginreglur verið látnar víkja fyrir við lögmáli valdsins og óttinn og svikin rutt sér til rúms.  Stríðið hafi kallað á ný stríð og Múhameð hafi komið af stað útþenslustefnu sem einkenni heiminn allt fram á þessa öld. 

Samkvæmt Hamed var það fyrst í skugga sverðsins sem hann fann þá viðurkenningu sem hann alltaf þráði.  En eftir því sem völd hans jukust þeim mun meiri völd hafi hann girnst.  Því fleiri óvini sem hann ruddi úr vegi þeim mun sjúklegri hafi tortryggni hans orðið.  Áhangendum hans í Medína hafi verið stjórnað í öllu því sem þeir tóku sér fyrir hendur.  Hann hafi varað þá við með kvölum í helvíti.  Syndarar hafi verið hýddir og svonefndir trúvillingar og guðlastarar drepnir.  

Múhameð og arfurinn

Hamed segir að með upphafningu á stríði og fordæmingu á trúleysi hafi síðustu súrur Kóranins stuðlað að óumburðarlyndi.  Vegna þess að litið sé á Kóraninn sem eilíft orð guðs finni íslamistar nútímans réttlætingu fyrir alþjóðlegu jíhad í gömlu herskáu ritningagreinunum.  Múhameð hafi lofað stríðsmönnum sínum eilífri vist í paradís og strax í þessum heimi ríkulegu herfangi fagurra kvenna.

Auk þess hafi hið „íslamska efnahagskerfi“ orðið til: Herfang, þrælaverslun og sérstakur skattur á vantrúaða hafi öldum saman verið mikilvægasta tekjulind múslímskra drottnara.  Óháð því hvaða nöfnum kalífadæmin gengu undir hafi allir múslímskir landvinningamenn heitið því að viðhalda arfinum frá Múhameð.  Og nú, segir Hamed, sjáum við hliðstæðu þessara hryðjuverkabófa í samtökum sem kallar sig Íslamska ríkið sem réttlæta voðaverk sín með því að skírskota til verka spámannsins.  Því einnig hann hafi látið hálshöggva stríðsfanga og rekið vantrúaða frá heimilum sínum.  

Dauðadýrkun hryðjuverkamanna sé líka arfleifð frá Múhameð sem spáði: „Sá dagur kemur að þjóðirnar munu ráðast á ykkur vegna þess að þið eruð veikir í hjörtum ykkar og elskið lífið meira en dauðann.“

Það sé einmitt krafa íslamistanna að fylgismenn þeirra elski dauðann meira en lífið.  Sú afstaða speglist í hryðjuverkaslagorðunum gegn Vesturlöndum: „Þið elskið lífið en við elskum dauðann.“ 

Hamed segir að þó að Múhameð hafi dáið fyrir 1400 árum hafi múslímar aldrei grafið hann endanlega.  Hann hafi skilið eftir sig fjöldann allan af reglum sem komi skipan á líf múslíma.  Boðskapur hans í Mekka sé huggunarríkur.  Súrur frá Medínatímabilinu réttlæti valdbeitingu.  Persónuleiki hans beri með sér svipmót geðveiki sem hann miðli áfram til margra múslíma: alræðisdraumum, mikilmennskubrjálæði, ofsóknarkennd, ranghugmyndum, þráhyggjuhugsunum og skort á hæfileikum til að þola gagnrýni.  Besta leiðin til að sýna Múhameð sanngirni sé að hafna trúnni á almætti hans.  Múslímar verði að grafa hina hættulegu almættisfyrirmynd.

Afstaðan til kvenna

Hamed segir að mótsagnakenndur persónuleiki spámannsins komi skýrt fram í samskiptum hans við konur.  Hann hafi bæði komið fram við þær sem harðstjóri og sem barn sem þjáist af ótta við að missa – og þetta sé arfleifð sem múslímskar konur búi ennþá við.  Því eldri sem hann varð þeim mun gerræðislegri hafi hann orðið í umgengni við kvenfólk.  Stundum hafi hann verið fullur viðkvæmni, á öðrum stundum tillitslaus og oft hafi hann verið óöruggur og afbrýðissamur.  Hann hafi fyrirskipaði þeim að hylja sig, takmarkaði ferðafrelsi þeirra og leyft þeim aðeins að tala við karlmenn ef veggur aðskildi þau sem töluðust við. 

Á efri árum hafi Múhameð ráðskast með konur eins og þær væru safngripir.  Eftir fyrstu eiginkonu hans, Khadijah, hafi fylgt ellefu aðrar.  Hann hafi gert hjúskaparsáttmála við 14 aðrar konur án þess að fullkomna þau hjónabönd líkamlega.  Loks megi nefna tvær tylftir kvenna sem hann trúlofaðist svo að ekki sé minnst á ambáttir sem hann hertók í stríðum eða konur sem hann fékk að gjöf.

Múhameð hafi verið svo eigingjarn að hann hafi bannað eiginkonum sínum að giftast eftir dauða sinn.  Það hljóti sérstaklega að hafa verið erfitt fyrir hina ungu Aisha því að samkvæmt íslömskum heimildum var hún aðeins 18 ára þegar hún varð ekkja.

Þegar hann giftist Aisha hafi hún verið sex ára.  Öldum saman hafi hjúskapur með ólögráða stúlkum verið lögmætur gerningur í íslam vegna þessa hjónabands.  Fyrir marga nútíma múslíma sé það óþægileg vitneskja að spámaður þeirra skyldi giftast sex ára stúlku.  Þess vegna leiti þeir logandi ljósi að afsökunum.  Sumir bendi á að hann hafi að vísu gifst henni þegar hún var sex ára en hafi fyrst fullkomnað hjónabandið þremur árum seinna.  Þessi málsvörn gangi út frá því að níu ára stúlkur séu kynþroska.

Hamed segir að þessi skýring stangist í fyrsta lagi á við vitnisburð Aisha að Múhameð hafi nálgast hana kynferðislega allt frá byrjun og gert næstum því allt með henni að því undanskildu að fara inn í hana.  Í öðru lagi sé níu ára stúlka sé aðeins barn.  Á tímum Múhameðs hafi það fjarri því verið viðtekið að menn stofnuðu til hjúskapar með barni.  Aðrir talsmenn reyni að draga í efa sannleikann um aldur Aisha en eigi í vandræðum með að útskýra að hún hafi sjálf gefið upp aldur sinn þegar hún giftist.  Þetta sé þyrnir í augum sumra íslamskra umbótamanna sem vilji yfirfæra húmaníska veraldarsýn sína á spámanninn.  Staðreyndin sé sú að atferli Múhameðs sé ekki aðeins ámælisvert samkvæmt siðferðislegum mælikvarða nútímans heldur stríði líka gegn ríkjandi viðmiðum hans eigin tíma.

Hamed segir að þrátt fyrir ást Múhameðs á Aisha hafi hann gengið í hjónaband með einni nýrri konu að meðaltali á hálfs árs fresti.  Hugtakið ótryggð hafi orðið honum hugleikið.  Ekki aðeins hafi fyrirmælunum um að konur yrðu að hylja sig verið stranglega framfylgt.  Hann hafi einnig innleitt ný lög til að berjast gegn ótryggð.  Refsing fyrir hórdómsbrot fyrir hjónaband hafi verið hundrað vandarhögg en refsing fyrir framhjáhald grýting til dauða.      

Ennþá séu konur í Írak, Sýrlandi og Nígeríu berskjaldaðar fyrir árásum.  Þær séu notaðar sem herfang í stríði og víða í íslamska heiminum þjáist þær vegna líkamslegs ofbeldis.  Sýruárásir á konur, umskurður, grýtingar og heiðursmorð séu grimmilegustu birtingarmyndir kvennahaturs í múslímskum samfélögum.  Að sjálfsögðu sé ekki bara hægt að skella skuldinni á íslam en Múhameð og Kóraninn verði heldur ekki sýknuð af því að leggja sitt af mörkum til að réttlæta undirokunina.

Bókarhöfundur segir að samkvæmt Kóraninum sé það eitt af hlutverkum kvenna að svala kynlífsþörfum karlmannsins.  Áður en stríðsmenn ÍSIS hafi byrjað að nota kristnar konur og Yasídakonur sem kynlífsþræla hafi nýliðar meðal ungra karlmanna verið lokkaðir til Sýrlands með skírskotun til þess að þar væri kynferðislegt jíhad leyfilegt.  

Súnnímúslímskir fræðimenn, sem styðji „kynferðislegt jíhad,“ beri spámanninn fyrir sig sem í sínum mörgu stríðum hafi leyft hermönnum sínum að ganga í „nautnahjónaband“ með konum.  Kynlífssiðferði verði að víkja fyrir æðra tilgangi: jíhad.

Og hvernig lítur paradís út í íslam?, spyr bókarhöfundur.  Hann segir að hún birtist sem himneskt vændishús þar sem hverjum og einum píslarvotti sé úthlutað 72 hreinum meyjum og 70 ambáttum.  Miðaldarguðfræðingurinn al-Suyuti hafi skrifað: „Í hvert sinn sem við höfum sofið hjá konu breytist hún strax á eftir í hreina mey.  Getnaðarlimur múslíma slaknar aldrei.  Stinningin helst að eilífu og nautnin af sameiningunni er óendanlega ljúf og ekki af þessum heimi.  Hver útvalinn hefur 70 hreinar meyjar sér við hlið auk þeirra eiginkvenna sem hann átti á jörðinni.  Og allar hafa þær fallegar og freistandi píkur.“

Samkvæmt Hamed var Múhameð ekki endilega kvenfjandsamlegur á mælikvarða síns tíma.  Hann láti margar jákvæðar athugasemdir falla um konur og hvetji fylgismenn sína til að koma ástúðlega fram við eiginkonur sínar.  Hvergi sé greint frá að hann hafi nokkru sinni barið neina af sínum konum.  Engu að síður staðfesti hann í Kóraninum rétt karlmannsins til að slá konu sína.  Því miður reynist það jafnvel nútíma múslímum erfitt að segja: „Að slá konur er alltaf rangt óháð því sem stendur um það í Kóraninum!“  Þess í stað vitni þeir í ritningarstaði þar sem spámaðurinn áréttar að barsmíðarnar megi ekki skilja eftir sig ummerki og að hlífa verði andliti konunnar.  

Stjórnunarárátta

Samkvæmt Hamed öðlaðist spámaðurinn mikil völd og áhrif í veröld síns tíma.  En hvers vegna, spyr bókarhöfundur, skyldi hann hafa sömu völd og áhrif í þeim heimi sem hann aldrei þekkti?  Hvers vegna ætti hann ennþá að ákveða hver má elska hvern eða giftast hverjum, hvað við eigum að borða, hvernig að haga okkur og hverju að klæðast?  Hvers vegna vilja múslímar ganga inn í þetta sögulega fangabúr af fúsum og frjálsum vilja?

Hamed segir að til þess að vera góður múslími skuli hinn trúaði taka spámanninn til fyrirmyndar í öllu sem hann tekur sér fyrir hendur.  Sjálfstæð ákvörðun, sveigjanleiki og sköpunargáfa séu ekki eiginleikar sem metnir séu að verðleikum.  Fyrir íhaldssama íslamska fræðimenn nútímans skapi þetta mikla möguleika á að ná valdi yfir múslímum.  Heilu sjónvarpsþættirnir leggi áherslu á að svara spurningum frá þeim trúuðu um „hvað spámaðurinn hefði gert.“  Þeir sem ekki fari eftir forskriftinni fái á sig stimpilinn „óhreinir syndarar.“  Í dag sé sektarkenndin og óskin um hreinsun mikilvægir drifkraftar fyrir innrætingu róttækra skoðana.  Íslamistarnir líti á sjálfa sig sem sanna arftaka spámannsins.

Hörundsár spámaður

Hamed segir að þrátt fyrir vægðarleysi stríðsmannsins hafi Múhameð verið viðkvæmur utangarðsmaður sem auðvelt var að móðga, varanlega brenndur af heiminum.  Ekki finnist ritningarstaðir í Kóraninum sem fyrirskipi dauðarefsingu þeim til handa sem móðgi spámanninn en í ævisögu hans úi og grúi af sögum um fólk sem hafi verið tekið af lífi að hans áeggjan vegna þess að það hafði skopast að honum.  Hefðin telji upp fleiri en 40 aftökur, þar á meðal á skáldum og söngvurum, sem höfðu vogað sér að gera Múhameð að athlægi. 

Bókarhöfundur nefnir dæmi þegar Múhameð rakst á lík af konu fyrir framan moskuna hans.  Hann hafi spurt hver hefði drepið hana.  Blindur maður hafi stigið fram og sagt: „Það gerði ég.  Hún var ambátt mín og við eigum tvö börn sem eru bæði perlur í mínum augum.  En í gær lét hún falla niðrandi orð um þig spámaður guðs.  Ég bað hana að hætta en hún endurtók það sem hún hafði sagt.  Ég þoldi það ekki og drap hana.“  Þessu á Múhameð að hafa svarað: „Blóð þessarar konu flýtur með réttu.“  

Sjálftaka valdsins

Hamed segir það ekki vera mest ógnvekjandi við söguna að maður drepur móður barna sinna heldur sú sjálftaka valdsins sem verknaður hans vitni um.  Að framkvæma dauðadóm sé ekki bara réttur þjóðhöfðingja eða ríkisstjórna – sérhver múslími hafi heimild til þess.  Sem dæmi nefnir hann að árið 2014 hafi hann haldið ræðu í Kaíró þar sem hann fullyrti að íslamski fasisminn hafi byrjað með Múhameð.  Þá hafi prófessor við Al-Azhar háskólann hvatt til þess að hann yrði drepinn og stutt þá kröfu með skírskotun til sögunnar um ambátt blinda mannsins.  

Samkvæmt Hamed verður sá sjúkdómur sem íslamski heimurinn þjáist af aðeins læknaður ef múslímar fara að skilja að þeir verði að losa sig við hinar mörgu meinsemdir spámannsins: hroka, ofsóknarkennd, skort á hæfileikum til að taka gagnrýni og tilhneigingu til að finnast sér misboðið.  Einnig verði að hafna þeirri afbökuðu guðsmynd sem hefur verið fyrirmynd harðstjóra. 

Hamed fullyrðir að bókstafstrú spretti ekki af mistúlkun á íslam heldur upphafningu trúarinnar á gerræðislegum yfirvöldum.  Umbætur á íslam muni fyrst geta hafist þegar múslímar þori að hleypa Múhameð út úr hans friðhelga búri.  Fyrst þá geti þeir brotist út úr fangelsi trúarinnar og orðið hluti af nútíð sem ekki er ákveðin af guði heldur manneskjum.

 




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×