Skoðun

Rétt skal vera rétt

Hildur Sverrisdóttir skrifar
Eftir forsíðufyrirsögn Fréttablaðsins sl. föstudag hef ég þurft að svara fyrir skoðun sem ég hef ekki. Ég hef oft svarað fyrir misvinsælar skoðanir mínar en það var ný reynsla að vera talin standa fyrir eitthvað sem mér finnst ekki.

Ég mæli ekki með því. Það er auðvelt að detta í vangaveltur um af hverju það gerist að orð manns eru túlkuð á annan hátt en þau voru sögð en ég ætla ekki að elta ólar við það að öðru leyti en eftirfarandi sé sagt hér.

Ég vil ekki að hægt sé að borga fyrir betri þjónustu í grunnþjónustu heilbrigðiskerfisins; ég vil ekki að það sé hægt að borga sig fram fyrir röð eða borga fyrir betra rúm á hjartadeildinni. Ég vil hins vegar að það sé boðið upp á aukaþjónustu og nýsköpun í velferðar- og heilbrigðiskerfinu í heild. Slíkt eykur valkosti og sjálfsákvörðunarrétt þeirra sem nýta þjónustuna. Með því að opna á aukinn einkarekstur í aukaþjónustu er hægt að styrkja grunnþjónustuna – grunnþjónustu sem við höfum fyrir löngu sammælst um að vilja standa vel að í þágu allra.

Í augum einhverra er þetta nákvæmlega sama tóbakið; allt sem tengist velferð á að vera undir sama hatti og lúta sömu lögmálum og sá sem talar um aukaþjónustu talar þar með um grunnþjónustu. Það er hins vegar ekki skoðun mín. Ég tel þvert á móti skynsamlegt að gera greinarmun og tala fyrir bestu kostunum í hvoru kerfi.

Og eitt að lokum. Það er ekki stefna Sjálfstæðisflokksins að hægt sé að borga fyrir betri þjónustu í grunnþjónustunni. Sama hversu margir leyfa sér að túlka orð mín út frá þeirri meintu stefnu flokksins – þá er það einfaldlega ekki stefna hans. Sjálfstæðisflokkurinn hefur þvert á móti sett aukið fjármagn í grunnþjónustu heilbrigðiskerfisins. Til þess að heilbrigðisþjónustan sé eins og við viljum hafa hana þarf hins vegar að leita nýrra heildarlausna til framtíðar og þá getur þurft að hugsa út fyrir rammann, eins og ég talaði fyrir í föstudagsviðtalinu.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu


Tengdar fréttir




Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×