Flest okkar eiga erfitt með að gera sér í hugarlund hvernig það er að eiga hvergi heima, helst líkist það því að vera flóttamaður í eigin landi. Við getum samt rétt ímyndað okkur hvað það eru þung spor að þiggja þjónustu Konukots í fyrsta sinn.
Konukot er skaðaminnkandi úrræði fyrir heimilislausar konur sem rekið er af Rauða krossinum í Reykjavík í samstarfi við Reykjavíkurborg. Ráðskonur Rótarinnar þáðu nýlega boð í kotið og Svala Jóhannesdóttir verkefnisstýra kynnti starfsemina fyrir okkur. Hún og hennar starfsfólk og sjálfboðaliðar leggja mikla áherslu á að koma fram við konurnar af virðingu, kærleika og samkennd. Á mildan hátt er forðast að setja sig á háan hest gagnvart konum sem eiga við fíknivanda að stríða eða falla ekki að siðaboðum og reglum samfélagsins á annan hátt. Konurnar í Konukoti eiga margar erfiða lífssögu að baki og kusu ekki þetta líf. Margar eiga sára reynslu af ofbeldi í æsku og sumar hafa búið við ofbeldi meira og minna alla ævi.
Þó að Konukot sé ekki meðferðarstofnun gilda að mörgu leyti sömu lögmál um starfsemina þar og í fíknimeðferð, því stærsti hluti kvennanna sem sækja þangað glímir við áfengis- og fíknivanda. Á Charles. K. Post meðferðarstöðinni í New York-fylki, og fleiri meðferðarstöðvum, er stuðst við þá reglu að konur meðhöndli konur. Þessu er ekki þannig farið á Íslandi og sjálfsagt er um að kenna skorti á þekkingu á sértækum vanda kvenna. Enn eimir mjög eftir af forræðis- og refsianda í heilbrigðis- og velferðarkerfi sem er lítt til þess fallinn að hjálpa þeim sem jaðarsettastir eru í samfélaginu. Þar eru konur á ysta hjaranum með sínar ofbeldis- og áfallasögur og eru þær enn viðkvæmari fyrir slíkri nálgun en karlar.
Við vitum að það er mikið af hugsjónafólki að vinna við meðferð og aðra þjónustu en samt hafa yfirvöld brugðist þessum konum að því leyti að ekki hefur verið mörkuð skýr stefna um áfallameðvitaða og kynjamiðaða meðferð og þjónustu þar sem nýjasta og besta þekking er nýtt. Konur með alvarlegan fíkni- og geðrænan vanda verða fyrir flókinni, margþættri og kerfisbundinni kúgun og því þarf heilbrigðis- og velferðarkerfið að nálgast þær á þeim forsendum. Reglan um að konur meðhöndli konur ætti þar af leiðandi að vera ófrávíkjanleg í allri meðferð og persónulegri þjónustu við konur í þessum hópi. Þetta á við í meðferð við fíknivanda og í athvörfum og gistiskýlum fyrir konur.
Fyrirmyndarúrræði
Konukot er griðastaður fyrir konurnar sem þangað sækja. Þær eiga rétt á vernd og öryggi meðan þær dvelja þar, þó að það sé aðeins opið í 17 klst. á sólarhring. Eftir að hafa sætt miklu ofbeldi af hendi karlmanna, einkum ef það hefur verið af hendi einhvers sem stendur þeim nærri, eins og föður, afa, bróður, frænda eða kærasta og maka, getur hvaða karlmaður sem er valdið þeim mikilli vanlíðan, ekki síst ef þær eru á einhvern hátt háðar ákvörðunum hans í þeirri stöðu sem hann gegnir. Þetta hefur ekkert með persónuna að gera eða hve fagmannlega hún sinnir sínu starfi.
Heimsókn okkar í Konukot var fróðleg og skemmtileg og ljóst að aðstandendur þess hafa byggt upp fyrirmyndarúrræði þar sem reynt er eftir bestu getu að beita áfallameðvitaðri og kynjamiðaðri nálgun þar sem reglan er að konur þjónusti og styðji konur.
Við þökkuðum fyrir okkur með því að færa Konukotskonum tvö eintök af bók Stephanie Covington, A Womans Way through the Twelve Steps, ásamt vinnubókum.
Takk fyrir okkur og til hamingju með faglegt og nærgætið starf. Konukot lætur kannski lítið yfir sér í veraldlegu tilliti en þar er ekki í kot vísað hvað inntak og atlæti varðar.

Ekkert örreytiskot
Skoðun

Vegna fyrirhugaðrar upptöku á notkun rafbyssa við löggæslustörf á Íslandi
Eva Einarsdóttir skrifar

Með lögum skal land byggja en ekki með ólögum eyða
Askur Hrafn Hannesson,Íris Björk Ágústsdóttir skrifar

Delluathvarf Stefáns
Konráð S. Guðjónsson skrifar

Farsæld til framtíðar
Bóas Hallgrímsson skrifar

Vg leggur smábátasjómenn á höggstokkinn!
Inga Sæland skrifar

Aðför að réttindum launþega
Birgir Dýrfjörð skrifar

Nýjasta trendið er draugur fortíðar
Sigmar Guðmundsson skrifar

Grasrót gegn útlendingafrumvarpi
Hópur fólks innan Vinstri grænna skrifar

Jafnréttisbarátta í 116 ár
Tatjana Latinovic skrifar

Mennska er máttur - í heilbrigðiskerfinu
Hlédís Sveinsdóttir skrifar

Íslenskt rafeldsneyti í eigu þjóðarinnar
Stefán Vagn Stefánsson skrifar

Miley Cyrus, laukurinn og framhjáhöldin
Birna Guðný Björnsdóttir skrifar

Framfarir í þágu þolenda ofbeldis
Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir skrifar

Hvað myndirðu gera ef barnið þitt kæmi heim með sýnilega áverka?
Alfa Jóhannsdóttir skrifar