Körfubolti

Svona líður manni þegar maður vinnur Grikki og kemur Íslandi í úrslit | Myndir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Strákarnir í tuttugu ára landsliðinu fögnuðu gríðarlega í gærkvöldi þegar liðið hafði tryggt sér sæti í úrslitaleiknum B-deild EM 20 ára liða og þar með sæti í A-deildinni á næsta ári.

Þetta er í fyrsta sinn sem íslenska 20 ára landsliðið mun taka þátt í úrslitakeppni Evrópumótsins en aðeins sextán bestu þjóðirnar taka þátt í A-deildinni á hverju sumri.

Íslenska liðið lenti undir á móti Grikklandi í gær og Grikkirnir voru á heimavelli, vel studdir af sinu fólki. Strákarnir okkar gáfust ekki upp, unnu sig inn í leikinn og fögnuðu svo sigri eftir æsispennandi lokamínútur.

Það vakti athygli að íslenska liðið gat komist yfir það að missa stigahæsta og stoðsendingahæsta leikmann sinn meiddan af velli. Grindvíkingurinn Jón Axel Guðmundsson var ekki með seinni hluta leiksins og munaði mikið um hann.

Haukamaðurinn Kári Jónsson tók liðið á herðar sér í lokin og var umfram allt sá leikmaður sem sá til þess að sigurinn féll Íslands megin. Kári endaði á því að skora 29 stig í leiknum og Grikkirnir réðu ekkert við hann.

Ljósmyndari FIBA Europe var á staðnum og náði skemmtilegum myndum af því þegar sigurinn var í höfn og íslensku strákarnir fögnuðu eins og þeim er einum lagið. Það er hægt að sjá þessar skemmtilegu myndir hér fyrir neðan.

Mynd/FIBAEurope



Fleiri fréttir

Sjá meira


×