Lífið

Retró tvíbýli í Garðabænum færir þig aftur til áttunda áratugarins

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Það er margt í íbúðinni sem sést ekki oft í dag.
Það er margt í íbúðinni sem sést ekki oft í dag.
Í Heiðarlundi í Garðabæ er tæplega 235 fermetra efri hæð í tvíbýli til sölu. Húsið er hið glæsilegasta en einhverjir hafa haft á orði að stíga inn fyrir hússins dyr sé eins og að koma aftur á áttunda áratuginn.

Í texta um eignina segir að hún hafi verið innréttuð á áttunda áratugnum og vel hafi verið hugsað um hana. Mikill „retro“ stíll er yfir henni og margt þar að sjá sem sést sjaldan í dag.

Hæðin er átta herbergja en fjögur svefnherbergi, eitt hjóna og þrjú barna, er að finna á svefnherbergjagangi hennar. Baðherbergið er flísalagt í hólf og gólf, stór og mikil innrétting á einum vegg. Gengið er niður tröppur í rúmgóðan sturtuklefa sem einnig er hannaður sem baðkar eða setulaug.

Íbúðin er ýmist flísa-, teppa-, dúka- eða parketlögð. Ekki er það látið duga því í hluta hennar er loftið einnig teppalagt. Auk alls þessa fylgir tvöfaldur bílskúr.

Ásett verð er tæpar 65 milljónir króna og er opið hús í Heiðarlundi þann 12. júlí næstkomandi milli klukkan 17.30 og 18.15. Það er fasteignasalan Miklaborg sem er með húsið á sínum höndum. Nánari upplýsingar má finna á fasteignavef Vísis.

Efri hæð tvíbýlisins geymir umræddan gimstein.
Í húsinu eru þrjú barnaherbergi en hluti þeirra hefur verið innréttaður upp á nýtt.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.