Innlent

Henda eins litlu og mögulegt er

Kristjana Björg Guðbrandsdóttir skrifar
Elísabet og Arndís Soffía í hótel Fljótshlíð láta matarsóun sig varða og gestir hrífast með.
Elísabet og Arndís Soffía í hótel Fljótshlíð láta matarsóun sig varða og gestir hrífast með.
Á hótel Fljótshlíð er lífrænn úrgangur vigtaður til að fylgjast með matarsóun. Þar er mikið lagt upp úr því að sóa minna og nýta allt hráefni betur.

,,Við getum gert mun meira en við höldum til að draga úr matarsóun í okkar daglega lífi,“segir Arndís Soffía Sigurðardóttir, eigandi hótelsins. „Fyrst þegar við hófum rekstur fór afskurður úr eldhúsi í ruslið en mjög fljótlega fórum við að halda öllum lífrænum úrgangi sér. Í dag vigtum við lífrænan úrgang úr eldhúsinu eftir hvern dag og niðurstaðan er sú að nú, á háannatíma, vegur lífrænn úrgangur í kringum 10 kíló á hverjum degi,“ segir Arndís Soffía frá.

Umhverfisstjóri hótelsins, Elísabet Björney Lárusdóttir, segir mælinguna gott tæki til að fylgjast með. „Til að vita hvaða verðmæti maður er með í höndunum verðum við að vita hvað mikið fellur til af úrgangi frá degi til dags. Það gefur okkur líka tækifæri til að fylgjast með því hvort eitthvert viðbragð hjá okkur leiði til breytinga,“ segir Elísabet. 

Hluti af átakinu fólst í að gestir hótelsins voru fræddir um magn úrgangs deginum áður og hve margar manneskjur sú þyngd af mat gæti fætt. „Þetta hefur greinilega vakið gesti til umhugsunar þar sem þyngd lífræns úrgangs lækkaði við þetta um 1-2 kíló á hverjum degi,“ segir Elísabet. Margt fleira er gert til að draga úr magni lífræns úrgangs á hótelinu. „Við hendum ekki beinum eftir úrbeiningu, við búum til soð. Við hendum ekki berjum sem ekki eru nægilega falleg til skreytinga, við búum til sultu. Við hendum ekki afskurði af kartöflum, við steikjum kartöfluflögur o.s.frv. Það sem við getum ekki nýtt fellur hér til dýra, hænsna og grísa, auk þess sem við vinnum moltu til heimabrúks með lífrænum úrgangi,“ segir Elísabet. 

Þessi frétt birtist upphaflega í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×