Viðskipti innlent

Birna nýr framkvæmdastjóri Viðreisnar

Sæunn Gísladóttir skrifar
Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, og Birna Þórarinsdóttir.
Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, og Birna Þórarinsdóttir. Mynd/aðsend
Birna Þórarinsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Viðreisnar frá og með 1. ágúst næstkomandi, og mun í störfum sínum hjá Viðreisn sinna daglegum rekstri flokksins og gegna lykilhlutverki í kosningabaráttunni sem er framundan. Hún er 36 ára gömul og hefur margháttaða reynslu af stjórnunar- og félagsstörfum segir í tilkynningu.

Birna var nú síðast verkefnastjóri atvinnulífstengsla hjá Háskólanum í Reykjavík, en áður var hún meðal annars framkvæmdastýra Evrópustofu, upplýsingamiðstöðvar ESB á Íslandi, yfirmaður skrifstofu UNIFEM (nú UN Women) á vegum Sameinuðu þjóðanna í Serbíu og framkvæmdastýra landsnefndar UNIFEM á Íslandi. Hún hefur kennt alþjóða- og öryggismál við bæði Háskóla Íslands og háskólann á Bifröst.

Hún hefur verið virk í félagslífi. Hún var t.d. formaður stjórnar Samtaka um kvennaathvarf og situr sem sérfræðingur í samráðshópi á vegum utanríkisráðuneytisins um framkvæmd ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 um konur, frið og öryggi.

Fram kemur í tilkynningu að hún er með MBA frá Háskólanum í Reykjavík, M.A. í öryggismálafræði frá Georgetown University og B.A. gráðu í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×