Innlent

Hrunið bætti neysluvenjurnar

Ingvar Haraldsson skrifar
Neytendur hugsa meira um hvernig þeir nýta peningana sína nú en fyrir hrun.
Neytendur hugsa meira um hvernig þeir nýta peningana sína nú en fyrir hrun. vísir/vilhelm
Bankhrunið árið 2008 virðist hafa gert Íslendinga að hagsýnni og meðvitaðri neytendum. Þetta er niðurstaða meistararitgerðar Hrundar Einarsdóttur í markaðsfræði við Háskólann í Reykjavík. „Þeir eru hagsýnni og hugsa meira áður en þeir eyða peningum,“ segir Hrund en ritgerðin byggir á neyslukönnunum Gallup frá árunum 2005, 2007, 2009 og 2015.

Hrund Einarsdóttir
Hrund segir að breytingar á neysluvenjum hafi orðið strax eftir hrun sem hafi haldið sér að einhverju leyti. „Neytendur fóru að leita meira að lágu verði, versluðu minna í lúxusmatvöruverslunum og nýttu sér afsláttarmiða í meira mæli,“ segir Hrund um þróunina í kjölfar hrunsins. Þá hafi tryggð neytenda gagnvart vörumerkjum einnig minnkað.

„Fjármálahrunið hefur haft einhver langtímaáhrif á neytendur þar sem sjö árum eftir hrunið eru sum viðhorf eins, þrátt fyrir batnandi efnahagsástand,“ segir Hrund og vísar þar til neyslukönnunar Gallup árið 2015. „Neytendum er enn umhugað um lágt verð en samt virðast þeir vera að leyfa sér ákveðinn lúxus, þar sem viðhorf gagnvart lúxusvörum og lúxusmatvöruverslunum er mun betra núna en það var árið 2009. Þeir eru enn þá jákvæðir gagnvart því að nýta sér afsláttartilboð.“

Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna, tekur undir að neytendur séu orðnir meðvitaðri um neyslu sína. „Fólk heldur fastar utan um sitt og hugsar meira um í hvað það eyðir. Við verðum alveg vör við það, sem er mjög góð breyting,“ segir hann.

„Ég held að fólk sé bara mjög brennt af hruninu, og það móti dálítið hvernig fólk hagar sér í dag,“ bætir Jóhannes við. Hann segir neytendur duglega að setja sig í samband við Neytendasamtökin þegar þeir taki eftir verðhækkunum.

Hrund segir breytinguna sem varð milli áranna 2007 og 2009 sýna að viðhorf neytenda breytist með efnahagsástandinu. „Það er klárlega samband milli viðhorfa neytenda og efnahagsástands,“ segir hún.

Hins vegar veki athygli að Íslendingar hafi fremur leitast eftir magni en gæðum í miðju hruninu, árið 2009. „Annars staðar í heiminum hugsuðu neytendur meira um gæði en magn í efnahagskreppum. En viðhorfið var akkúrat öfugt í fjármálakreppunni hérna á Íslandi.“ Þetta samband hafi nú snúist við á Íslandi.

Þessi frétt birtist upphaflega í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×