Innlent

Engin fordæmi fyrir aðgerðum Samkeppniseftirlitsins

Gunnar Atli Gunnarsson skrifar
Aðgerðir Samkeppniseftirlitsins gegn Mjólkursamsölunni eru fordæmalausar við beitingu samkeppnislaga hér á landi. Sérfræðingur í samkeppnisrétti segir eftirlitið ekki treysta fyrirtækinu til að starfa með réttum hætti.

Samkeppniseftirlitið lagði í gær 480 milljón króna stjórnvaldssekt á Mjólkursamsöluna vegna alvarlegrar misnotkunar fyrirtækisins á markaðsráðandi stöðu. En það er fleira í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins sem vekur athygli en eftirlitið ákvað, samhliða fyrrgreindri sekt, að grípa til nokkuð róttækra aðgerða gegn fyrirtækinu.

Sala á hrámjólk skuli aðskilin

Í niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins kemur fram krafa að sala Mjólkursamsölunnar á hrámjólk skuli vera aðskilin frá annarri starfsemi fyrirtækisins. Þá skuli MS fela óháðum aðila að leggja árlega mat á það hvort félagið gæti jafnræðis í viðskiptum með hrámjólk í samræmi við fyrirmæli ákvörðunarinnar.

Samkeppniseftirlitið grípur til þessara aðgerða á grundvelli 16. gr. samkeppnislaga en þar kemur meðal annars fram að Samkeppniseftirlitið geti gripið til aðgerða gegn samningum, skilmálum og hvers konar athöfnum sem brjóta í bága við bannákvæði laganna. Aðgerðir eftirlitsins geti falið í sér hverjar þær ráðstafanir sem nauðsynlegar séu til að efla samkeppni, stöðva brot eða bregðast við athöfnum opinberra aðila sem kunna að hafa skaðleg áhrif á samkeppni.

Engin fordæmi fyrir slíkum aðgerðum

Eru fordæmi fyrir beitingu slíkra úrræða í samkeppnismálum hér á landi?

„Í fljótu bragði kemur mér ekkert í hug sem að talist gæti alveg sambærilegt nei. Og ég tek eftir því, þó ég hafi ekki haft tök á að rýna ákvörðun Samkeppniseftirlitsins gaumgæfilega, að eftirlitið vísar ekki sjálft til neinna fyrirmynda úr sinni fyrri framkvæmd til stuðnings þessu úrræði,” segir Heimir Örn Herbertsson, lektor við lagadeild Háskólans í Reykjavík og sérfræðingur og samkeppnisrétti.

Tveir aðrir sérfræðingar í samkeppnisrétti sem fréttastofa ræddi við í dag taka undir þetta að kröfur Samkeppniseftirlitsins séu án fordæma.

Heimir segir þetta mikið inngrip í starfsemi Mjólkursamsölunnar enda um að ræða fyrirmæli stjórnvalds um innra skipulag fyrirtækisins.

„Þannig að eftirlitið greinilega treystir því ekki, eða mér sýnist það, að Mjólkursamsalan muni starfa á þann hátt, skulum við segja, sem að Samkeppniseftirlitið telur að það eigi að gera,” segir Heimir.

Vonir stóðu til þess að MS myndi láta af háttsemi

Stjórnarformaður Mjólkursamsölunnar sagði í samtali við fréttastofu að fyrirtækið ætli að óska eftir skýringum frá Samkeppniseftirlitinu við þessum kröfum. Forstjóri Samkeppniseftirlitsins segir ekki algengt að eftirlitið beiti slíkum úrræðum.

„Það þótti nauðsynlegt einfaldlega vegna þess að þetta tiltekna fyrirtæki hefur áður gerst brotlegt við samkeppnislög með svipuðum hætti. Og þá auðvitað stóðu vonir til þess að fyrirtækið myndi láta af þeirri háttsemi sinni, en núna er auðvitað komið annað á daginn,” segir Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins.


Tengdar fréttir

MS þyrfti að hækka vöruverð um tvö prósent

"Öll svona áföll þýða það náttúrulega að höggið lendir fyrr eða síðar á annað hvort bændum eða neytendum. Fyrirtækið er núllstillt þar á milli,” segir Egill.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×