Innlent

Á þriðja hundrað borgir hafa sett sér loftslagsmarkmið

Áætlað er að 2/3 jarðarbúa - 6 milljarðar - muni búa í borgum árið 2945. NordicPhotos/GettyImages
Áætlað er að 2/3 jarðarbúa - 6 milljarðar - muni búa í borgum árið 2945. NordicPhotos/GettyImages
umhverfismál Vel á þriðja hundrað borgir um heim allan hafa sett sér loftslagsmarkmið til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda innan sinna borgarmarka og berjast þannig gegn loftslagsbreytingum. Fleiri hundruð borgir til viðbótar hafa blásið til samvinnu við ýmis samtök vegna verkefna sem tengjast loftslagsmálum. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu alþjóðasamtakanna Worldwatch Institude, State of the World – Can a City be Sustainable? Þar segir að 228 borgir að lágmarki, sem finna má í öllum heimsálfum, með 439 milljónir íbúa hafi sett sér loftslagsmarkmið. Það er þar – hjá sveitarfélögum, segja höfundar skýrslunnar, sem sóknarfærin gætu helst legið við að ná þeim markmiðum sem þjóðir heims hafa sett sér og birtast í skuldbindingum þeirra í nýjum loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna sem var dreginn upp í París í desember. Því eru það íbúar borga heimsins sem gegna lykilhlutverki í að ná því markmiði að halda hlýnun jarðar innan marka sem jarðarbúar geta lifað við. Tveir af höfundum skýrslunnar, þeir Michael Renner og Tom Prugh, segja að í ljósi þess hversu verkefnið er risavaxið þá dugi ekkert annað til en róttækar aðgerðir á þéttbýlustu svæðunum. Breyta verði í grundvallaratriðum hvernig borgir eru hugsaðar hvað varðar neyslu- og úrgangsmál og allt til þess hvernig þær líta út og eru uppbyggðar. Borgir heims hýsa í dag rúmlega helming mannkyns og standa fyrir 70% af orkuþörf og losun gróðurhúsalofttegunda. Ef fer sem horfir munu sex milljarðar manna lifa í borgum árið 2045, eða tveir þriðju jarðarbúa. Orkuþörf borga mun þrefaldast fyrir 2050 miðað við árið 2005. Ekki að furða þar sem iðnaðaruppbygging hverfist um borgir heims, þó hver og ein þeirra sé með mjög misjafnlega stórt vistspor í dag, metið á hvern íbúa. Á loftslagsfundi á vegum Reykjavíkurborgar seint á síðasta ári kom fram í máli Hjálmars Sveinssonar, formanns umhverfis- og skipulagsráðs, að á Parísarráðstefnunni í desember hefðu yfirvöld borga verið áberandi enda væri mikilvægt að borgir tækju höndum saman um að bregðast við vandanum þar sem meirihluti mannkyns byggi í borgum. Brýnt væri að þær legðu fram skýrar áætlanir varðandi það hvernig dregið yrði úr losun gróðurhúsalofttegunda og úrgangi. Hjálmar sagði að í Aðalskipulagi Reykjavíkurborgar væri áætlun um að draga úr útblæstri um 73% fyrir árið 2050.svavar@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×