Innlent

Fangar fá sjaldan lán

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Formaður Afstöðu, félags fanga, segir nánast alla fanga vera á vanskilaskrá, meðal annars vegna sakarkostnaðar.
Formaður Afstöðu, félags fanga, segir nánast alla fanga vera á vanskilaskrá, meðal annars vegna sakarkostnaðar. Fréttablaðið/Anton brink
„Það er í raun ekkert sem bannar föngum eða fyrrverandi föngum að fá lán hjá LÍN en staðreyndin er sú að reglur hjá LÍN eru ekki hannaðar fyrir þennan hóp,“ segir Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, félags fanga á Íslandi, en hann hefur sett sig í samband við menntamálaráðuneytið vegna þess hve erfitt er fyrir fanga og fyrrverandi fanga að fá námslán.

Hann segir ástæðuna vera þá að nánast allir fangar séu á vanskilaskrá, meðal annars vegna sakarkostnaðar. Einstaklingur á vanskilaskrá þarf að útvega sér ábyrgðarmann til þess að eiga möguleika á námsláni. „Flestir fangar eru búnir að brenna allar brýr að baki sér og verða því að sanna sig áður en þeim er treyst af fjölskyldu eða vinum. Besta leiðin til þess að sanna sig er einmitt að snúa blaðinu við og læra og ná áfanga.“

Guðmundur segir að ef fyrrverandi fangi hefði tök á því að mennta sig og þannig eiga auðveldara með að komast inn í samfélagið á ný, myndi endurkomutíðni í fangelsin minnka. „Það fara svo margir aftur í fangelsi því þeir fengu enga aðstoð til að breyta lífi sínu. Stjórnvöld ættu að gera allt sem í þeirra valdi er til að þess að auka aðgengi til náms fyrir fanga því aukin menntun fækkar glæpum og endurkomu í fangelsi.“

Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra segir núgildandi ástand vera eins og Guðmundur lýsi því. „Það skiptir máli að fangar eða fyrrverandi fangar mennti sig. Þá eru minni líkur á því að þeir fari aftur í fangelsi. Við vitum þetta og með nýja frumvarpinu erum við að opna á það,“ segir Illugi en í lok síðasta mánaðar lagði hann fram nýtt frumvarp um LÍN. Í frumvarpinu er nýmæli um að námsmenn geti fengið styrkgreiðslur á mánuði.

„Af því að við erum að aðskilja styrki og lán þá getur fangi sem er í lánshæfu námi og nær námsframvindunni fengið styrkinn þrátt fyrir að vera á vanskilaskrá. Eina undantekningin er sú að viðkomandi má ekki vera í vanskilum við lánasjóðinn en þetta er mikil bót frá því sem áður var,“ segir Illugi og bætir við að lánshæft nám sé einnig iðn- og verknám en ekki einungis nám á háskólastigi.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 13. júní.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×