Innlent

Ráðgjöf Hafró leyfir veiði á 224 hrefnum á ári

Svavar Hávarðsson skrifar
Hvalur hf., hóf hvalveiðar að nýju 2006, en þær gætu verið úr sögunni að óbreyttu.
Hvalur hf., hóf hvalveiðar að nýju 2006, en þær gætu verið úr sögunni að óbreyttu. vísir/daníel
Ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar er að árlegar veiðar á hrefnu næstu þrjú árin, 2016 til 2018, verði ekki meiri en 224 dýr á íslenska landgrunnssvæðinu, eins og segir í skýrslu stofnunarinnar um ástand nytjastofna á Íslandsmiðum 2015/2016 og aflahorfur fiskveiðiárið 2016/2017.

Ráðgjöfin er byggð á úttektum vísindanefnda Norður-Atlantshafs sjávarspendýraráðsins (NAMMCO) og Alþjóðahvalveiðiráðsins (IWC).

Hrefnuveiðar hafa undanfarin ár verið innan við helmingur af ráðlögðum hámarksfjölda. Flestar hrefnur hafa verið veiddar í Faxaflóa utan afmarkaðs hvalaskoðunarsvæðis. Árið 2015 veiddust 36 hrefnur.

Stefnt er að því að viðamikilli úttekt vísindanefndar IWC á hrefnustofnum Norður Atlantshafs ljúki árið 2016, en slíkar úttektir fara fram á sex til átta ára fresti. Árið 2017, á grundvelli þeirrar úttektar ásamt nýjum gögnum úr hvalatalningum 2015–2016, mun verða veitt ráðgjöf til lengri tíma.

Þá ráðleggur Hafró að árlegar veiðar á langreyði árin 2016 og 2017 verði ekki meiri en 146 dýr á veiðisvæðinu milli Austur-Grænlands og Íslands. Langreyði hefur fjölgað jafnt og þétt við Ísland frá upphafi hvalatalninga árið 1987 og var fjöldinn í síðustu talningu (2007) sá hæsti síðan talningar hófust.

Veiðar á langreyði hafa síðastliðin ár verið nálægt ráðlagðri hámarksveiði, að undanskildum árunum 2011 og 2012 þegar engin veiði var vegna náttúruhamfara í Japan sem er helsta útflutningslandið. Árið 2015 veiddust 155 langreyðar.

Forsvarsmenn Hvals hf., gáfu það út í vetur að skip fyrirtækisins fara ekki til veiða í sumar. Ástæðan eru aðferðir Japana við rannsóknir á kjötinu, og sagði Kristján Loftsson í viðtali við Morgunblaðið að breytist þær ekki sé hvalveiðum sjálfhætt.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 14. júní.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×