Skoðun

Valdið er þitt

Natan Kolbeinsson skrifar

Sveitastjórnarkosningarnar árið 2014 voru mér vonbrigði vegna þess að aðeins um helmingur ungs fólks undir 30 ára mætti á kjörstað.

Þátttaka í þessum kosningum var sú minnsta frá stofnun lýðveldis á Íslandi og líka þær fyrstu þar sem kosningaþátttakan var skráð eftir aldri.

Það er mjög alvarlegt vandamál þegar ungt fólk sér sér ekki fært að mæta á kjörstað og hafa þannig áhrif á hvernig landinu okkar og sveitarfélögum er stjórnað. Það er sorglegt því að á Íslandi, eins og á hinum Norðurlöndunum, höfum við mjög ríka og sterka hefð fyrir því að fólk mæti á kjörstað. Þó kjörsókn fari minnkandi annars staðar en hér á landi þá gerir hún það hraðar hér en á öðrum Norðurlöndum.

     

Áhugi ungs fólks á stjórnmálum er ekkert meiri eða minni en annarra aldurshópa og þvert á það sem við höldum þá er ungt fólk mjög áhugasamt um stjórnmál. Í könnun sem Maskína gerði og kom út 8. apríl kemur meðal annars fram að 90,9% fólks 25 ára og yngra fylgdist mikið með atburðunum sem áttu sér stað eftir Kastljósþáttinn þar sem Panamaskjölin voru fyrst opinberuð.

Þó ungt fólk vanti kannski rödd inn á Alþingi eða í sveitastjórnum þá hefur það látið í sér heyra á samfélagsmiðlum með byltingum á borð við #égerekkitabú og #freethenipple. Ungt fólk getur svo sannarlega látið í sér heyra og gerir það reglulega. Vandamálið er að það mætir bara ekki á kjörstað til þess að kjósa sér fulltrúa sem geta breytt samfélaginu með þeim.

Ég skora hér með á ungt fólk að mæta á kjörstað þann 25. júní til að kjósa forseta. Einstakling sem er tilbúinn í að taka slaginn með þeim og breyta því sem þau vilja breyta í samfélaginu. Hvort sem það er Andri Snær, Guðni, Halla eða einn af þeim fjölmörgu frambjóðendum sem gefið hafa kost á sér þá skora ég á þig að mæta. Valdið er þitt til að breyta því sem þig langar að breyta og það gerist ekki nema þú mætir á kjörstað.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×