Innlent

Sigmund allur settur á internetið

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Sigmund Jóhannsson teiknaði skopmyndir í Morgunblaðið í 44 ár.
Sigmund Jóhannsson teiknaði skopmyndir í Morgunblaðið í 44 ár.
Vestmannaeyjabær sem á allar 11 þúsund Morgunblaðsskopmyndir Sigmunds Jóhannssonar frá árunum 1964 til 2008 hyggst gera teikningarnar aðgengilegar á vefnum.

Ofangreint kom fram á fundi bæjarráðs Vestmannaeyja á þriðjudag. Þar er rakið að forsætisráðuneytið keypti á árinu 2004 safn Sigmunds á 18 milljónir króna.

„Var um leið ákveðið að safnið yrði vistað í Vestmannaeyjum og var það afhent til varðveislu í Safnahúsi Vestmannaeyja, segir í fundargerð bæjarráðsins. Um hafi verið að ræða um tíu þúsund myndir, eða allar teikningar Sigmunds er birtust í Morgunblaðinu frá 1964 til desember 2004.

„10. janúar 2016 kom Sigmundur Davíð Gunnlaugsson til Eyja og afhenti fyrir hönd forsætisráðuneytisins Vestmannaeyjabæ allar teikningarnar til eignar,“ segir bæjarráðið, sem kveður myndirnar þá eftirleiðis eign bæjarins. „Þýðir þessi gjörningur meðal annars að Vestmannaeyjabær hefur fullt forráð til að selja afnotarétt af teikningunum til birtingar í blöðum, bókum eða á annan hátt.“

Síðan segir frá því að fyrir andlát Sigmunds  í maí 2012 hafi Ísfélagið og Vinnslustöðin keypt teikningar Sigmunds sem Morgunblaðið birti á tímabilinu 2005 til 2008. Fyrirtækin hafi gefið Vestmannaeyjabæ myndirnar. „Eru þá allar teikningarnar sem birtust í Morgunblaðinu, um 11 þúsund talsins, orðnar eign Vestmannaeyjabæjar og varðveittar í Safnahúsinu.“

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 2. júní




Fleiri fréttir

Sjá meira


×