Innlent

Ráðherra fær nýjan aðstoðarmann

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Eva Magnúsdóttir.
Eva Magnúsdóttir.
Eva Magnúsdóttir, stjórnendaráðgjafi og framkvæmdastjóri, hefur verið ráðin sem aðstoðarmaður Ragnheiðar Elínar Árnadóttur iðnaðar- og viðskiptaráðherra og hefur hún störf í dag.

Síðasti þingfundur fyrir sumarfrí á yfirstandandi þingi er í dag en ríkisstjórnin hefur boðað að kosið verði til Alþingis í október. Fyrir er Ragnheiður með aðstoðarmanninn Ingvar P. Guðbjörnsson.

Eva er með fjölbreytta reynslu úr  atvinnulífinu en síðustu tvö árin hefur hún rekið ráðgjafarfyrirtækið Podium ehf. Áður starfaði hún m.a. í framkvæmdastjórn Mílu ehf., var forstöðumaður almannatengsla og talsmaður Símans í nokkur ár auk þess sem hún hefur sinnt blaðamennsku og kennslu að því er segir í tilkynningu á vef stjórnarráðsins.

Eva er með MBA gráðu í viðskiptafræði og stjórnun. Hún er jafnframt því með diplóma í hagnýtri fjölmiðlun og BA gráðu í þjóðháttafræði og leikhús- og bókmenntafræðum.

Eva er gift Finni Sigurðssyni, verkefnastjóra hjá LS Retail og eiga þau tvær dætur.

Uppfært klukkan 16:17

Í fyrstu útgáfu fréttarinnar var fullyrt að um lokadag Alþingis væri að ræða í dag. Um er að ræða síðasta dag fyrir sumarleyfi. Þing hefst aftur 15. ágúst. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×