Innlent

Telur að hugmyndir Lars myndu veikja stöðu Landsvirkjunar

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Lars Christensen kynnti skýrslu sína um orkumál í gær.
Lars Christensen kynnti skýrslu sína um orkumál í gær. vísir/stefán
„Það sem mér finnst gagnrýniverðast við þessa umræðu er að um áttatíu prósent af sölu Landsvirkjunar eru til stóriðju og um 20 prósent inn á heildsölumarkaðinn,“ segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, um nýja skýrslu um orkumarkaðinn sem Lars Christ­ensen alþjóðahagfræðingur vann fyrir Samtök iðnaðarins.

Í skýrslu sinni varar Lars við því að Landsvirkjun sé með ráðandi stöðu á orkumarkaði. Þess vegna ætti að skipta fyrirtækinu í einingar.

„Í stóriðjuhlutanum erum við að keppa á alþjóðlegum markaði. Þar erum við að keppa við fyrirtæki eins og Statkraft í Noregi og Vattenfall í Svíþjóð. Við erum á mjög virkum samkeppnismarkaði með um 80 prósent af okkar raforkusölu,“ segir Hörður. Hann bætir því við að ef hugmyndir Lars myndu ganga eftir myndi það fyrst og fremst veikja samningsstöðu Landsvirkjunar á þessum markaði.

„Við erum þegar langminnsta fyrirtækið og samningsstaða okkar og sá arður sem færi til íslensku þjóðarinnar myndi án efa minnka við þetta,“ segir Hörður.

Lars leggur líka til að eignartengslin milli Landsvirkjunar, sem er orkuframleiðandi, og Landsnets, sem er orkudreifingaraðili á Íslandi, verði rofin. Hann segir einnig að ríkið geti selt bæði þessi fyrirtæki. Hörður segir að það sé eigandans, íslenska ríkisins, að ákveða hvort tveggja.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 3. júní.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×