Erlent

Svisslendingar hafna borgaralaunum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Ekki virðist vera mikill stuðningur við borgaralaun í Sviss.
Ekki virðist vera mikill stuðningur við borgaralaun í Sviss. vísir/epa
Samkvæmt útgönguspám þjóðaratkvæðagreiðslu sem fram fór í Sviss í dag hafa Svisslendingar hafnað tillögu um að tekin verði upp borgarlaun í landinu. Tillagan gekk út á það að fullorðið fólk fengi greitt laun, óháð því hvort það væri í vinnu eða ekki. Samkvæmt útgönguspánni eru 78 prósent þjóðarinnar á móti því að tekin verði upp borgaralaun í landinu.

Í tillögunni var ekki kveðið á um hversu há borgarlaunin ættu að vera en þeir sem lögðu tillöguna fram sögðu að miða ætti við 2500 svissneska franka á mánuði, eða sem samsvarar 315 þúsund krónum, að því er segir í frétt BBC.

Lítill stuðningur var við tillöguna á meðal svissneskra stjórnmálamanna. Þannig studdi enginn stjórnmálaflokkur tillöguna en þeir sem stóðu að henni náðu að safna meira en 100 þúsund undirskriftum til stuðnings henni og því fór fram þjóðaratkvæðagreiðsla um hana.

Þeir sem gagnrýndu tillöguna sögðu að það væri slæmt fyrir samfélagið ef tengslin á milli vinnu og peninga yrðu rofin. Þeir sem lögðu tillöguna fram bentu hins vegar á að mikið af þeim störfum sem innt séu af hendi í Sviss séu ólaunuð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×