Erlent

Bandarískur blaðaljósmyndari lést í árás í Afganistan

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Mynd tekin af David Gilkey í Afganistan árið 2004.
Mynd tekin af David Gilkey í Afganistan árið 2004. Vísir/Getty
Bandarískur blaðaljósmyndari og túlkur hans létust í árás á bíl þeirra í Afganistan í gær. Blaðamaðurinn er fyrsti bandaríski fjölmiðlamaðurinn alfarið ótengdur hernum sem lætur lífið í stríðsátökum í Afganistan. BBC greinir frá.

David Gilkey starfaði hjá National Public Radio eða NPR í Bandaríkjunum. Hann var á ferðalagi ásamt túlki sínum Zabihullah Tamanna þegar ráðist var að þeim. Það endaði með því að bíllinn varð fyrir sprengju og þeir létust báðir ásamt bílstjóranum sem var afganskur hermaður. Mennirnir voru á ferð með afganska hernum. Tveir starfsmenn NPR voru með í för en þeir sluppu ómeiddir frá átökunum.

Gilkey var fimmtugur blaðaljósmyndari sem hafði fjallað um stríðið í Afganistan síðan árið 2001. Hann hóf að fjalla um stríðið í kjölfar árásanna á Tvíburaturnana þann 11. september það ár. Í yfirlýsingu frá Michael Oreskes, aðstoðarframkvæmdastjóra NPR, segir að Gilkey hafi helgað líf sitt því að sýna almenningi stríð í réttu ljósi og hann hafi látist við að sinna þeirri skuldbindingu sinni. Gilkey fékk fjölmargar viðurkenningar á starfsferli sínum og var til að mynda valinn kyrrmynda ljósmyndari ársins árið 2011. Túlkurinn Zabihullah Tamanna var einnig blaðamaður og ljósmyndari. Hann starfaði í Afganistan.  

 ​




Fleiri fréttir

Sjá meira


×