Innlent

Ísland eitt með engan útblástur vegna raforku

Svavar Hávarðsson skrifar
Útblástur vegna raforku- og varmaframleiðslu er ekki mælanlegur á Íslandi.
Útblástur vegna raforku- og varmaframleiðslu er ekki mælanlegur á Íslandi. Fréttablaðið/Vilhelm
Hlutfall útblásturs gróðurhúsalofttegunda vegna raforku- og varmaframleiðslu fer yfir 50 prósent í fjölmörgum löndum Evrópu. Ísland er með lægsta hlutfallið, en hér er enginn útblástur vegna þessara tveggja þátta. Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Alþjóðabankanum (World Bank) og Samorka vekur athygli á í frétt á heimasíðu sinni.

Ísland er með lægsta hlutfall útblásturs gróðurhúsalofttegunda (CO2) vegna bruna jarðefnaeldsneytis við raforku- og varmaframleiðslu í Evrópu. Eistland stendur verst af Evrópulöndunum, en þar eru tæplega 80 prósent af öllum útblæstri tilkomin vegna raforku- og varmaframleiðslu.

Í fjölmörgum löndum eru yfir 50 prósent af heildarútblæstri vegna raforku- og varmaframleiðslu, meðal annars í Finnlandi og Póllandi. Í Danmörku er hlutfallið 49 prósent.

Mikill munur er á þeim löndum sem lægsta hlutfallið hafa. Ísland og Lúxemborg skera sig úr, en Lúxemborg er með átta prósent útblásturs vegna raforku- og varmaframleiðslu.

Þar næst kemur Frakkland með sautján prósent, Svíþjóð hefur fjórða lægsta hlutfallið, eða 25 prósent, og í Belgíu er hlutfallið 27 prósent.

Á Íslandi er notað jarðefnaeldsneyti við raforku- og varmaframleiðslu í undantekningartilfellum, en magnið er það lítið að það mælist ekki í úttekt Alþjóðabankans. 



Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 9. júní 2016




Fleiri fréttir

Sjá meira


×