Lífið

Bambaataa hafnar alfarið öllum ásökunum um barnaníð: „Ég hef aldrei snert þennan mann“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Afrika Bambaataa tjáir sig um málið í sjónvarpsviðtali.
Afrika Bambaataa tjáir sig um málið í sjónvarpsviðtali. vísir/getty
Í síðasta mánuði komu fram alvarlegar ásakanir um að hip-hop tónlistarmaðurinn Afrika Bambaataa hafi brotið kynferðislega á ungum drengjum í áraraðir.

Í framhaldinu af því var sú ákvörðun tekin að listamaðurinn kæmi til að mynda ekki fram á tónlistarhátíðinni Secret Solstice eins og fyrir hugað var.

Sjá einnig: Tekinn af dagskrá Secret Solstice vegna alvarlegra ásakana

Sjálfur hafnar Bambaataa þessum ásökunum. „Ég hef aldrei misnotað neinn og það er algjör bilun að halda því fram,“ segir hann í viðtali við FOX 5 í Bandaríkjunum.

„Ég skil ekki af hverju svona ásakanir koma fram, hver er ástæðan fyrir því? Ég næ ekki að átta mig á því.“

Fjölmargir hafa stigið fram vestanhafs og borið tónlistarmanninn þungum sökum eftir að Ronald nokkur Savage lýsti kynferðisofbeldi af hálfu Bambaataa þegar hann sjálfur var táningur.

„Þetta snerist bara um að skemmta sér, hanga og hlusta á tónlist,“ sagði Savage um æskuárin í Bronx hverfinu í New York. Savage var sjálfur nokkuð stórt nafn í Zulu Nation sem tóku þátt í að koma hip-hop á kortið. „Ég var stórt nafn á götunum, var yngsti meðlimur Zulu Nation. Allir létu mig í friði af því enginn lagði í Zulu Nation,“ sagði Savage við New York Daily News. Einn daginn, þegar hann var fimmtán ára, breyttist allt.

„Ég var í stofunni, annar maður var þar og verið að spila tónlist,“ sagði Savage. Bambaataa hafi sagt honum að fara inn í herbergið sitt því kveikt væri á sjónvarpinu. Nokkrum mínútum síðar hafi kynferðisbrot átt sér stað, í fyrsta skipti af nokkrum.

„Hann veit vel að þetta er ekki satt og hann þarf að hætta að tala um svona vitleysu,“ segir Bambaataa um ásakanir Savage.

„Ég hef aldrei snert þennan mann. Það er verið að saka mig um eitthvað sem ég gerði einfaldlega ekki. Við lifum í samfélagi þar sem slík viðgengst og margir sitja í fangelsi fyrir glæpi sem þeir frömdu ekki.“

Hér að neðan má sjá viðtalið við Bambaataa.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.