Lífið

Uppistand frá tveimur heimshornum

Stefán Þór Hjartarson skrifar
Hugleikur Dagsson verður á Rosenberg í kvöld ásamt ástralska grínistanum Jonathan Duffy með sýninguna Icetralia.

„Þetta er uppistandssjó með mér og grínistanum Jonathan Duffy sem er nýbúi hér á Íslandi, hann er Ástrali sem flúði hingað til lands eftir að hafa skilið við manninn sinn. Hann segist vera eini samkynhneigði uppistandarinn á landinu, ég spurði hann hvort hann væri viss og hann sagði: „Ég er eini samkynhneigði grínistinn sem er kominn út úr skápnum á Íslandi.“ Það er bara spurning hver verður fyrri til að koma út úr skápnum: Dóri DNA eða Björn Bragi,“ segir Hugleikur og biður mig endilega að vitna í þessi orð hans.

„Leiðir okkar lágu fyrst saman í jólasýningu í Tjarnarbíói í desem­ber og við ákváðum að gera eitthvað saman í kjölfarið á því og úr varð þessi sýning. Jonathan talar í 40 mínútur og ég í 20 mínútur, hann talar um að vera útlendingur á Íslandi og verður með dásamlegt skit um Sigmund Davíð. Það er frábært að sjá hans sýn á ástandið í landinu.“

„Minn hluti verður blanda af gömlu og nýju efni, svona best of nema á ensku. Við höfum sýnt þetta þrisvar áður en sýningin í kvöld verður sú besta hingað til.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×