Skoðun

Computer says NO – um orð og efndir

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir skrifar

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks eru sett fram markmið í heilbrigðismálum sem hljóma ágætlega í eyrum landsbyggðarþingmanns. Þau er í stuttu máli þessi:

  • Styrkja skal grunnþjónustu á landsbyggðinni.
  • Landsmenn njóti aðgengis að heilbrigðisþjónustu óháð búsetu.
  • Íbúar landsins fái notið þeirrar grunnþjónustu sem gera á kröfu um í þróuðu nútímasamfélagi.

En hverjar eru efndirnar? Ekki hefur enn komið ein króna til fjölda heilsugæslustöðva á landsbyggðinni vegna stórfelldra launahækkana lækna þar sem lausráðnir verktakar eru við störf. Staðir sem reiða sig alfarið á verktakalækna eru til dæmis Ólafsvík, Hólmavík, Grundarfjörður og Stykkishólmur.

Ekki möguleiki á fastráðningu

Alkunna er að ekki hefur verið möguleiki undanfarin misseri að fastráða lækna víðast hvar á landsbyggðinni þrátt fyrir ítrekaðar auglýsingar. Þessi vandkvæði hafa verið á Snæfellsnesi, Patreksfirði, Ísafirði, Hólmavík, víða á Austurlandi og á Suðurlandi. Til að forðast þjónustufall hafa stjórnendur ráðið lækna í verktöku. Þannig hefur verið unnt að halda uppi þjónustu, stundum skertri, þó að við hafi verið unað.

Læknaverktakar eru ekki inni í launakerfi ríkisins. Þeir fá ekki greitt samkvæmt reikningi eins og hver annar seljandi/veitandi þjónustu. Forstöðumenn hafa tjáð mér að þar sem þessi læknisþjónusta er ekki inni í launakerfinu hafi ekki verið gert ráð fyrir neinum launakostnaði lækna á viðkomandi heilsugæslustöðvum vegna 30-40% launahækkana lækna á liðnu ári. Segir sig sjálft að með því að taka ekki svo stórfelldar launahækkanir með í reikninginn er verið að rýra framlög til heilsugæslunnar svo nemur tugum milljóna á ári í tilviki einstaka stöðva.

Engin viðbrögð frá ráðuneyti

Reiknilíkanið sem notast er við í öllum öðrum meginatriðum hefur verið tekið úr sambandi þegar kemur að launarekstri heilsugæslustöðvanna. Nú þegar vantar um 40% í launagrunn lækna á framangreindum stöðvum. Við þessu hefur heilbrigðisráðuneytið ekki brugðist. Svörin þar á bæ eru einfaldlega „the computer says NO“. Á meðan flæðir undan starfseminni á landsbyggðinni og íbúar upplifa sig í stöðugri varnarbaráttu.

Því er spáð að með þessu áframhaldi verði mjög farið að draga úr læknisþjónustu á nefndum svæðum fyrir árslok 2016, árið 2017 verði óviðráðanlegt að óbreyttu.

Hvað ætlar heilbrigðisráðherra að gera? Ætlar hann að una þessari þróun? Var það þetta sem hann átti við þegar sett voru fram markmiðin um að styrkja grunnþjónustu á landsbyggðinni, tryggja að landsmenn njóti aðgengis að heilbrigðisþjónustu óháð búsetu og að íbúar landsins fái notið þeirrar grunnþjónustu sem gera á kröfu um í þróuðu nútímasamfélagi?



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×