Erlent

Minnst 56 látnir í sprengjuárás í Pakistan

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá Lahore.
Frá Lahore. Vísir/AFP
Minnst 56 eru látnir eftir stóra sprengingu í borginni Lahore í austurhluta Pakistan. Um rúmlega 200 eru sagðir vera særðir en fórnarlömb árásarinnar eru að mestu konur og börn. Enginn hefur lýst yfir ábyrgð á árásinni.

Samkvæmt heimildum BBC er um sjálfsmorðsárás að ræða. Hún var gerð í garði í borginni þar sem fjölmargir höfðu komið saman vegna páskahátíðarinnar. Líklegt þykir að fjölskyldur kristinna hafi verið skotmark árásarinnar.

AFP fréttastofan hefur eftir lögregluþjóni að kúlulegur hafi fundist í garðinum. Þær eru oft settar í sprengjuvesti og valda miklum skaða.

Lahore er höfuðborg héraðsins Punjab, sem að mestu hefur sloppið við þá óöld sem hefur geisað í Pakistan síðustu ár. Talibanar hafa gert margar árásir í vesturhluta landsins, þar sem þeir eru sterkastir.

Herinn hefur verið kallaður til aðstoðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×