Skoðun

Geðheilbrigði barna

Guðbjörg Björnsdóttir og Halldór S. Guðmundsson skrifar
Geðheilbrigði barna hefur verið í umræðunni að undanförnu eftir að skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu við börn og unglinga var birt í febrúar 2016. Í skýrslunni kemur fram að langir biðlistar geti haft langvarandi afleiðingar og jafnvel leitt til örorku síðar meir.

Sálfélagslegur vandi barna er algengari en ætla mætti og slíkir erfiðleikar geta haft mikil áhrif á einstakling, leitt til skertrar virkni hans innan fjölskyldunnar, í námi og síðar á vinnumarkaði. Alþjóðaheilbrigðisstofnun hefur t.a.m. spáð því að þunglyndi verði eitt af þeim vandkvæðum sem helst leiði til örorku árið 2020. Erfiðleikar af þessu tagi hafa töluvert verið rannsakaðir meðal grunnskólabarna og unglinga og hafa þær rannsóknir, ásamt rannsóknum á fullorðnum, bent til að erfiðleikarnir hefjist á leikskólaárum.

Fyrir Alþingi liggur nú aðgerðaráætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára. Meginmarkmið slíkrar áætlunar er m.a. að auka forvarnir, auðvelda aðgengi að hópa- og einstaklingsmeðferð og auka stuðning við fjölskyldur. Auk þess er lagt til að tekin verði upp reglubundin skimun vegna kvíða, þunglyndis og annars konar vanda barna og unglinga í grunn- og framhaldsskólum landsins. Athygli vekur að þó upphaf hegðunar- og tilfinningavanda barna megi rekja til leikskólaaldurs er ekki fjallað um þann aldurshóp í fyrrgreindri aðgerðaráætlun.

Skimun hefjist á leikskólaaldri

Halldór S. Guðmundsson dósent við félagsráðgjafardeild HÍ
Nýlegar niðurstöður rannsókna meðal leikskólabarna á Íslandi leiddu í ljós að rúmlega 20% leikskólabarna eiga við sálfélagslegan vanda að stríða að mati foreldra og leikskólakennara. Sálfélagslegur vandi getur verið bæði tilfinningalegir erfiðleikar og hegðunarvandi. Alls voru 12% barna metin með kvíðavanda sem þyrfti að fylgjast sérstaklega með eða jafnvel þarfnaðist meðhöndlunar. Ef miðað er við fjölda leikskólabarna á Íslandi benda þessar niðurstöður til að um sé að ræða 4.000 börn sem glíma við erfiðleika sem þarfnist eftirlits eða meðhöndlunar.

Í aðgerðaráætluninni sem liggur fyrir Alþingi er meðal annars lagt til að framkvæmd verði reglubundin skimun á kvíða og þunglyndi meðal barna í grunn- og framhaldsskólum landsins.

Rökin fyrir slíkri skimun skv. aðgerðaráætluninni er há tíðni slíkra raskana (15-20%). Miðað við fyrrgreinda rannsókn á íslenskum leikskólabörnum mælist tíðni þessara raskana lítið lægri en sú sem getið er í um aðgerðaráætluninni. Með það í huga, ásamt því að rannsóknir benda til að upphaf geðraskana megi rekja til leikskólaaldurs, telja greinarhöfundar mikilvægt að hefja reglubundna skimun á sálfélagslegri líðan barna á leikskólaaldri. Slíkt myndi gefa tækifæri til snemmtækrar íhlutunar og þar með minnka líkur á vaxandi og viðvarandi erfiðleikum síðar á ævinni.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 29. mars.
Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×