Erlent

Deilan um Falklandseyjar: Argentínumenn fagna ákvörðun um stækkun landhelgi

Atli Ísleifsson skrifar
Eyjarnar eru nú sjálfstjórnarsvæði þar sem Bretar ráða yfir varnar- og utanríkismálum landsins.
Eyjarnar eru nú sjálfstjórnarsvæði þar sem Bretar ráða yfir varnar- og utanríkismálum landsins. Vísir/Getty
Argentínsk stjórnvöld fagna nú ákvörðun nefndar Sameinuðu þjóðanna um stækkun landhelgi ríkisins, en hinar umdeildu Falklandseyjar eru nú samkvæmt ákvörðuninni innan argentínskrar landhelgi.

Argentínska utanríkisráðuneytið hefur greint frá því að landhelgi Argentínu hafi með ákvörðuninni stækkað um 1,7 milljón ferkílómetra, eða 35 prósent.

Í frétt Sky News segir að ákvörðun Sameinuðu þjóðanna verði höfð til grundvallar í áframhaldandi baráttu ríkisins við Breta um Falklandseyjar sem Argentínumenn kalla Las Malvinas.

Utanríkisráðherrann Susana Malcorra segir ákvörðunina skipta sköpum varðandi afmörkun landgrunns Argentínu og yfirráð yfir því.

Argentínumenn gerðu tilraun til að ná eyjunum á sitt vald árið 1982 þegar þeir komu hermönnum fyrir á eyjunum, en þurftu frá að hverfa skömmu síðar. 

Stríðið stóð í rúma tvo mánuði og fórust alls um níu hundruð manns – 255 Bretar og 649 Argentínumenn – og á þriðja þúsund særðust. Þá misstu bæði Bretar og Argentínumenn nokkrar freigátur og tundurspilla og argentínski flugherinn þurrkaðist nánast út.

Eyjarnar eru nú sjálfstjórnarsvæði þar sem Bretar ráða yfir varnar- og utanríkismálum landsins. Stór hluti íbúa eyjanna vilja ekkert með Argentínu hafa, en íbúarnir telja um þrjú þúsund.

Bresk stjórnvöld hafa enn ekki tjáð sig um ákvörðun nefndar Sameinuðu þjóðanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×