Körfubolti

Var þetta ásetningur hjá Ragnari? | Myndband

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Þór Þorlákshöfn gerði góða ferð í Hafnarfjörðinn í kvöld og vann þriggja stiga sigur, 64-67, á Haukum í fyrsta leik liðanna í 8-liða úrslitum Domino's deildar karla í körfubolta.

Kári Jónsson, sem var á dögunum valinn besti leikmaður seinni hluta Domino's deildarinnar, spilaði aðeins í tæpar 15 mínútur í leiknum en hann meiddist í fyrri hálfleik.

Í 2. leikhluta fékk Kári hnykk á bakið eftir svokallaða bakhindrun frá Ragnari Nathanealssyni, miðherja Þórs.

Kári var studdur af velli og kom lítið við sögu í leiknum eftir þetta og ekkert í seinni hálfleik. Það var skarð fyrir skildi hjá Haukum eins og Ívar Ásgrímsson, þjálfari liðsins, viðurkenndi í samtali við Vísi eftir leik.

„Þetta er bara eins og fyrir hin liðin að missa útlendingana sína. Auðvitað var það mjög slæmt fyrir okkur og svo missum við Emil [Barja] af velli með fimm villur. Það var dýrt í lokin og það kostaði okkur kannski sigurinn að hann fær þessa fimmtu villu,“ sagði Ívar sem kvaðst ekki hafa séð atvikið með Kára og Ragnar.

„Ég hef ekki séð atvikið, þannig ég get ekki sagt neitt sjálfur um það, en mér er sagt að þeir sem hafi skoðað þetta í endursýningu hafi sagt að þetta hafi verið grófur ásetningur. Það er kannski erfitt fyrir mig að segja eitthvað hér án þess að hafa horft á þetta.“

Atvikið má sjá í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×