Viðskipti innlent

Mathöll verður opnuð á Hlemmi í haust

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Þrívíddarmynd af því hvernig mathöllin mun hugsanlega líta út.
Þrívíddarmynd af því hvernig mathöllin mun hugsanlega líta út. mynd/trípóli arkitektúr
Reykjavíkurborg og Sjávarklasinn skrifuðu í dag undir samstarfssamning um mathöll sem opna mun á Hlemmi í haust. Mathöllin á að vera heimili úrvals sælkeraverslana og smárra veitingastaða en Hlemmur verður þó eftir sem áður mikilvægur áfangastaður í leiðakerfi Strætó. Þá munu farþegar Strætó njóta bættrar þjónustu á opnunartíma mathallarinnar.

Verkefnið hefur verið í undirbúningi um nokkurt skeið en seinasta sumar auglýsti borgin eftir rekstraraðila að matarmarkaði á Hlemmi. Í ágúst samþykkti borgarráð að velja Sjávarklasann til áframhaldandi viðræðna og síðan þá hefur verið unnið að þróun mathallarinnar.

Ráðast þarf í umtalsverðar breytingar á Hlemmi áður en matarhöllin opnar og munu framkvæmdir hefjast í apríl. Reykjavíkurborg stendur straum af kostnaði vegna breytinganna en í liðinni viku samþykkti borgarráð að verja 107 milljónum króna í verkefnið.

Haukur Már Gestsson og Bjarki Vigfússon hjá Sjávarklasanum eru framkvæmdastjórar mathallarinnar. Þeir vilja leggja sérstaka áherslu á matarupplifun, gæði vörunnar og fjölbreytni þannig að allir geti fundið eitthvað við sitt hæfi.

„Á Hlemmi verður úrval lítilla sælkeraverslana og veitingastaða. Þar gæti verið á boðstólnum allt frá nýbökuðu brauði, fersku kjöti, sjávarfangi og grænmeti yfir í kaffi, ljúffenga smárétti og framandi götumat.“ segir Haukur Már.

Í þessari viku verður svo auglýst eftir rekstraraðilum en hægt verður að fylgjast með framhaldinu á hlemmurmatholl.is og á Facebook-síðu Hlemms - mathallar.

Ásýnd Hlemms breytist mikið þegar búið verður að taka filmur úr gluggum.mynd/trípólí arkitektúr
Deiliskipulag á Hlemmtorgi er í endurskoðun og stefnt er að því að stækka almenningsrými í kringum Hlemm í nýju skipulagi.mynd/trípólí arktitektúr

Tengdar fréttir

Vísað burt af Hlemmi eftir tugi ára

Hlemmi verður lokað í vetur og rekstraraðilum vísað burt. Eigandi sjoppu á torginu er ósáttur við að fá engin svör frá Reykjavíkurborg um það hvort hann fái að halda áfram rekstri eftir endurbætur.

Harmar framkomu við starfsfólk á Hlemmi

Starfsfólk Strætó er í óvissu um framtíð sína á Hlemmi vegna skipulagsbreytinga sem eru í vændum. Eftir sex vikur stendur til að loka torginu. Sonja Sigurjónsdóttir þjónustufulltrúi og Árni Kjartansson, öryggis- og húsvörður á Hlemmi, segja starfsfólki haldið í óvissu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×