Erlent

Segja herinn undirbúa árásir þrátt fyrir vopnahlé

Samúel Karl Ólason skrifar
Stjórnarhermenn á ferð nærri Aleppo.
Stjórnarhermenn á ferð nærri Aleppo. Vísir/EPA
Uppreisnarmenn í Sýrlandi segja að stjórnarherinn undirbúi nú árásir, þrátt fyrir að vopnahlé sé í gildi. Þeir segja að vopnahléið muni ekki halda hætti herinn og bandamenn þeirra ekki hátterni sínu. Átök hafa minnkað í landinu, en uppreisnarmönnum ber ekki saman við vestræna leiðtoga um hve mikið.

Þeir segja að árásir stjórnarhersins haldi áfram í norðvesturhluta landsins. Uppreisnarmenn hafa ekki sagt til um hvort þeir muni taka þátt í friðarviðræðum sem eiga að fara fram þann 9. mars.

Samkvæmt frétt Reuters segir leiðtogi hópsins Jaish al-Islam að stjórnarherinn hafi jafnvel hernumið ný svæði og undirbúi árásir á hernaðarlega mikilvæga bæi.

Bæði Rússar og stjórnarherinn segjast ekki ætla að hætta árásum sínum á Íslamska ríkið og Nusra Front, en vopnahléið nær ekki yfir þá hópa. Né aðra hópa sem Sameinuðu þjóðirnar skilgreina sem hryðjuverkahópa.

Vígamenn Nusra Front, deild al-Qaeda í Sýrlandi, eru þó víða um vesturhluta Sýrlands og hafa starfað náið með uppreisnarhópum sem vopnahléið nær til.

Leiðtogi annars uppreisnarhóps, sem bað Reuters um nafnleynd, segir að menn sínir hafi séð um 40 bíla frá hernum ferðast norður í gærkvöldi. Fjöldi vopnaðra manna hafi verið í bílunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×