Skoðun

Að gefnu tilefni

Þingflokkur Bjartrar framtíðar skrifar
Víða í Evrópu, meira að segja á Norðurlöndum, hafa þröngsýnir og öfgafullir stjórnmálaflokkar sem ala á útlendingaótta náð fótfestu undanfarið. Í þeim löndum þar sem öfl af þessum toga hafa náð völdum hafa einræðistilburðir í stjórnarháttum fylgt í kjölfarið. Lýðræðið, víðsýnin, manneskjulegt samfélag byggt á mannréttindum og samhygð á undir högg að sækja. Baráttan um opið, frjálst samfélag á sér stað í Evrópu og víðar og hún mun eiga sér stað í sívaxandi mæli á Íslandi.

Við í þingflokki Bjartrar framtíðar teljum mikilvægt að vekja athygli á þessu. Við spáum því að í alþingiskosningum að ári muni öfgafull öfl af þessu tagi gera sig gildandi hér á landi, í nýjum og gömlum flokkum. Grunngildi eins og þau, að heilbrigt samfélag eigi að rétta fólki í neyð - eins og flóttafólki - hjálparhönd, að ákvarðanir skulu teknar lýðræðislega á grunni upplýsinga, að hleypidómar og hræðsluáróður ráði ekki ferðinni, að við eigum að bera ábyrgð í samfélagi þjóðanna, í sameiginlegri viðureign þeirra við stríðsógnir og umhverfisvá, - öll þessi gildi eru í hættu. Þau eru ekki sjálfsögð. Að þeim er vegið af óbilgirni, bæði austan og vestan Atlantsála.

Gegn þessu þarf að berjast af staðfestu. Hin góðu gildi þarf að verja, annars grefst undan þeim. Höfum þess vegna eitt alveg á kristaltæru: Björt framtíð mun ætíð berjast af staðfestu gegn fordómum, hræðsluáróðri, útlendingaótta, mannvonsku, forheimsku, einræðistilburðum og óábyrgri þjóðernispopúlistapólitík.Til þess vorum við stofnuð.

Við vildum að þið vissuð þetta.

Annars erum við góð.




Skoðun

Sjá meira


×