Skoðun

Skýra stefnu um sölu banka

Birgir Ármannsson skrifar

Þær óvenjulegu aðstæður hafa nú skapast hér á landi að langstærsti hluti bankakerfisins er kominn í hendur ríkisins. Ríkið er eini eigandi Íslandsbanka, á megnið af hlutabréfum Landsbankans og nokkurn hlut í Arion banka.



Óþarfi er að rekja hér hvernig þessar eignir komust í hendur ríkisins en á hinn bóginn er rétt að minna á að þessi staða er ekki til komin vegna þess að einhvern tímann hafi verið mörkuð sú stefna að ríkið skyldi verða yfirgnæfandi þátttakandi í bankarekstri í landinu. Þvert á móti hefur verið um það allgóður samhljómur að ríkið myndi við réttar aðstæður draga úr hlutdeild sinni þótt skoðanir hafi verið skiptar um hversu hratt það skuli gerast og hvort stefnt skuli að því að ríkið haldi eftir einhverjum hluta.



Margvísleg rök eru fyrir sölu á þessum eignarhlutum. Tvennt vegur þyngst í mínum huga. Fyrra atriðið er að yfirgnæfandi hlutdeild ríkisins í atvinnustarfsemi á samkeppnismarkaði er að mínu mati óheilbrigð. Ríkinu ber að sjálfsögðu að setja þessari starfsemi ramma í lögum og reglugerðum og hafa eftirlit með því að aðilar á markaðnum haldi sig innan þeirra heimilda sem þar er að finna. Það er eftir slíkum leiðum sem ríkisvaldið á að ná fram markmiðum um eðlilegan og heilbrigðan rekstur en ekki með eignarhaldi á fyrirtækjunum sem starfa á markaðnum.



Hin meginröksemdin er sú að sala þessara eigna getur bætt stöðu ríkissjóðs umtalsvert. Flestir eru sammála um að skynsamlegast sé að verja söluandvirðinu til að greiða niður skuldir. Vaxtakostnaður er einn af stærstu útgjaldaliðum ríkisins og með verulegri lækkun skulda gæti skapast svigrúm sem nemur tugum milljarða á ári hverju. Það svigrúm mætti nýta hvort sem væri til lækkunar skatta, uppbyggingar innviða, eflingar heilbrigðiskerfisins eða annarrar mikilvægrar starfsemi. Þá er ótalinn sá ávinningur sem lækkun skulda ríkisins hefði á lánshæfismat, ekki bara fyrir ríkissjóð heldur líka aðra aðila hér á landi.



Alþingi hefur með fjárlögum veitt heimild til að hefja sölu á 28,2% hlut í Landsbankanum. Það er mikilvægt fyrsta skref. Jafnframt er mikilvægt að marka skýra stefnu um sölu á öðrum hlutum ríkisins í bönkunum. Að sjálfsögðu er nauðsynlegt að ígrunda vel tímasetningar og aðferðir við söluna og grundvallaratriði að þannig sé staðið að málum að ferlið sé opið og gegnsætt. Með því móti er líklegast að víðtæk sátt náist um þessar aðgerðir.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×