Vísir hefur áður fjallað um þróun þeirra Stefáns og Búa Bjarmar Aðalsteinssonar á vörunni, sem meðal annars á að vekja Vesturlandabúa til umhugsunar um þá ókönnuðu möguleika sem felast í nýtingu skordýra til matvælagerðar. Eftir um tveggja ára starf þurfa Stefán og Búi að bíta í það súra epli að fá ekki söluleyfi hér á landi fyrir Jungle Bar, sem þó var komið í hillur í Hagkaupum í síðasta mánuði og seldist vel.
„Við framleiddum tuttugu þúsund stykki í nóvember og komum með hluta framleiðslunnar hingað til lands, því við vildum fagna hérna og bjóða Íslendingum upp á þessa nýjung,“ segir Stefán. „Það var ekki fyrr en fjórum dögum eftir að við vorum byrjaðir að selja þetta að við fengum símtal frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkurborgar og fengum að vita að við þyrftum að taka vöruna úr sölu.“
Það þurftu þeir að gera vegna innleiðingar reglugerðar um nýfæði, sem Evrópusambandið tók upp árið 1997. Hún var innleidd hér á landi í lok október, einni viku fyrir framleiðsludag hjá fyrirtæki Stefáns og Búa, Crowbar Protein. Breytingin fór ekki fyrir Alþingi, heldur var hún samþykkt beint af ráðherra.
„Með þessu eina pennastriki ráðherra var lokað fyrir okkar möguleika á því að markaðssetja og selja vöruna okkar á íslenskum markaði,“ segir Stefán.

„Þá mun gluggi opnast fyrir okkur að sækja um leyfi fyrir þessi skordýr sem matvæli. Við vitum ekki hvað það ferli mun taka langan tíma. Við erum orðnir ótrúlega þreyttir á þessu öllu saman.“
Sjá einnig: Íslendingur í heimspressuna fyrir skordýramatargerð
Elta tækifærin í Bandaríkjunum
Heilu og hálfu dagarnir hafa farið í það að undanförnu hjá þriggja manna fyrirtækinu Crowbar að leita leiða til þess að koma vöru sinni aftur í sölu hér á landi en í gær fékk fyrirtækið endanlega að vita að það fær ekki söluleyfi.
„Nú verðum við að einbeita okkur að því að halda fyrirtækinu gangandi og leita þangað sem tækifærin bíða okkar, og það er í Bandaríkjunum,“ segir Stefán. Hann segir sölu í gegnum vefsíðu fyrirtækisins hafa gengið mjög vel þar í landi og að Crowbar protein, sem nýlega fékk styrk úr Tækniþróunarsjóði, sé búið að gera samning við bandaríska dreifingaraðila.
Stefán segir Crowbar-menn samt sem áður sorgmædda yfir því að fá ekki að selja vöru sína, sem þeir eru mjög stoltir af, heima fyrir. Verkefni sem þessi séu einstaklega mikilvæg í ljósi sívaxandi eftirspurnar eftir próteinríkri fæðu í heiminum og skorts á rými til hefðbundins landbúnaðar.
„Þetta er svo miklu stærra en íslenskt fyrirtæki að gera íslenska vöru,“ segir hann. „„Sigur skordýranna“ á Íslandi væri mjög þýðingarmikill fyrir önnur ríki. Þannig að koma með svona fréttir núna, það eru í raun bara sorgarfréttir.“