„Skordýr henta bæði í sætindi, brauðmeti og svo eitthvað sem myndi frekar líkjast kjötmeti,“ útskýrir Búi. „Vonandi verður þetta varan sem fær fólk til að taka fyrsta skrefið og svo getum við byrjað að vinna að svona inngripsmeiri vörum, pöddulasagne eða pöddupulsur eða hvað sem er.“
Búi vakti athygli í fjölmiðlum hér á landi sem og í erlendum miðlum síðasta sumar fyrir uppfinninguna „Fly factory,“ vélrænt skordýrabú sem hefur það að markmiði að ala lirfur í matargerð. Það verkefni var, líkt og Jungle Bar, að einhverju leyti innblásið af lestri skýrslu FAO, landbúnaðararms Sameinuðu þjóðanna, um stöðu landbúnaðar í Evrópu.

Hugmyndasmiðirnir telja það því mjög mikilvægt að kynna Vesturlandabúum möguleikana sem felast í því að leggja sér skordýr til matar, nokkuð sem aldrei hefur slegið í gegn hér á landi en þykir sjálfsagður hlutur í mörgum öðrum heimshlutum. Ekki skemmi fyrir að þó reglur um skordýr í matvælaframleiðslu séu enn sem komið er nokkuð óskýrar hér á landi, sem og í öðrum Evrópulöndum, bendi allt til þess að Ísland gæti hentað stórvel til slíkrar framleiðslu.
„Það eru miklir möguleikar fyrir Ísland að hasla sér völl á þessu sviði,“ segir Búi. „Við höfum náttúrulega heilmikið af vatni, heilmikið af plássi og það er ekki mikil áhætta ef þessi skordýr sleppa út. Þau myndu náttúrulega ekki lifa nema þessa þrjá sumardaga í júní.“

„Þá tekur bara við að fá til okkar dreifingar- og söluaðila. Nú þegar höfum við selt í kringum tvö, þrjú þúsund stykki án þess að fólk hafi fengið að sjá vöruna. Það hlýtur að vera til marks um að það sé hægt að selja þetta úti í búð.“
En þá stendur bara ein spurning eftir: Hvernig bragðast orkustykki sem búið er til úr krybbum?
„Stykkið sjálft er bara svipað og önnur prótínstykki,“ segir Búi. „Það er talsvert betra, því prótínið úr skordýrum er talsvert betra á bragðið en soja- og mysuprótín. En annars er þetta prótín svipað og þú færð úr harðfiski eða kjöti, með öllum helstu amínósýrum sem líkaminn þarf.
Við erum búnir að leyfa í kringum 2500 manns að smakka, á Íslandi, Danmörku og Hollandi. Það er alltaf þannig að fyrst þegar fólk heyrir þetta, án þess að sjá vöruna, er það mjög skeptískt. Þeim finnst þetta hálfgert grín. En þegar fólk sér að þetta lítur bara út eins og venjulegt orkustykki, þá lætur það sig hafa það. Það er alveg yndislega skemmtilegt þegar maður heyrir miðaldra konur segja hvor við aðra, þetta er nú ekki alslæmt.“