Körfubolti

Næstu tvær stoðsendingar hjá Justin verða sögulegar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
209 leikir eru að baki á tæpum tíu árum og Justin Shouse á nú möguleika á því að komast á topp stoðsendingalista úrvalsdeildar karla. Kappinn hefur gefið 6,7 stoðsendingar að meðaltali í leik á þessum næstum því tíu tímabilum.

Jón Arnar Ingvarsson er búinn að eiga metið síðan hann fór upp fyrir nafna sinn Jón Kr. Gíslason tímabilið 2002 til 2003 en hann var þá leikmaður Breiðabliks. Jón Arnar bætti metið í leik á móti KR 5. desember 2002 og er því búinn að eiga það í rúm þrettán ár. Jón Arnar endaði á því að senda 1.392 stoðsendingar á ferli sínum í úrvalsdeildinni.

Vantar fimm tímabil hjá Jóni Kr.

Jón Kr. Gíslason er í þriðja sætinu með 1.359 stoðsendingar en það segir þó ekki alla söguna. Jón Kr. var nefnilega búinn að spila fimm tímabil og 93 leiki í deildinni áður en menn fóru fyrst að skrá stoðsendingar tímabilið 1988-89.

Jón Kr. Gíslason gaf flestar stoðsendingar á fimm af sex fyrstu tímabilunum sem stoðsendingarnar voru teknar saman í úrvalsdeildinni og eina tímabilið sem vantar upp á var tímabilið sem hann lék ekki í deildinni heldur spilaði með SISU í Danmörku.

Eiríkur Sverrir Önundarson og Sverrir Þór Sverrisson náðu líka að gefa yfir 1.300 stoðsendingar en lögðu skóna á hilluna áður en þeir ógnuðu meti Jóns Arnars fyrir alvöru.

Þrír aðrir leikmenn hafa náð að komast yfir þúsund stoðsendinga markið en það eru Teitur Örlygsson, Friðrik Ragnarsson og Tómas Holton. Næsti meðlimur þúsund stoðsendinga klúbbsins gæti orðið Keflvíkingurinn Magnús Þór Gunnarsson. Magnús þarf þó að gefa 38 stoðsendingar í viðbót til að ná því og það gerist því væntanlega ekki fyrr en á næsta tímabili í fyrsta lagi.

Fyrsta stoðsendingin kom í leik á móti KR

Leið Justins að fyrsta sætinu hófst í Vesturbænum 20. október 2006 þegar hann lék sinn fyrsta leik í úrvalsdeildinni. Justin gaf þá 7 stoðsendingar á liðsfélaga sína í Snæfellsliðinu sem urðu þó að sætta sig við tap fyrir KR. Justin hafði tímabilið áður leikið með Drangi frá Vík í Mýrdal í 1. deildinni en fékk nú tækifæri hjá Geof Kotila.

Justin lék tvö tímabil í Stykkishólmi en samdi svo við Stjörnuna sumarið 2008. Justin hefur spilað í Garðabænum síðan þá og er nú orðinn leikjahæsti leikmaður félagsins í úrvalsdeildinni.

Besta stoðsendingatímabil Justins var 2012-13 þegar hann gaf 188 stoðsendingar eða 8,5 í leik. Það dugði þó ekki nema í annað sætið á stoðsendingalistanum. Justin hefur unnið stoðsendingatitilinn á tveimur tímabilum (2009 og 2012) en hann er búinn að vera tvisvar sinnum í öðru sæti og öll tímabilin meðal þeirra sex efstu. Justin Shouse er eins og er í öðru sæti í stoðsendingum á eftir KR-ingnum Ægi Þór Steinarssyni.

Hver skorar körfuna?

Það má fastlega búast við því að Justin Shouse bæti met Jóns Arnars í kvöld og verði jafnvel búinn að því strax í fyrsta leikhlutanum. Justin hefur minnst gefið þrjár stoðsendingar í leik á þessu tímabili og er með fimm eða fleiri stoðsendingar í 10 af 15 leikjum sínum

Kannski er meiri spenna að sjá hvaða leikmaður skorar eftir met-sendinguna. Ábyrgðin liggur líka á skráningamanni Grindvíkinga að missa ekki af stoðsendingu hjá Justin á þessum tímamótum en það er alltaf mat tölfræðings hvers leiks hvað er stoðsending og hvað er ekki stoðsending.

Leikur Grindavíkur og Stjörnunnar hefst klukkan 19.15 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.