Handbolti

Omeyer frábær þegar Frakkar jörðuðu Króata

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Thierry Omeyer átti frábæran leik gegn Króötum. Hér ver hann eitt sextán skota sinna í leiknum.
Thierry Omeyer átti frábæran leik gegn Króötum. Hér ver hann eitt sextán skota sinna í leiknum. vísir/afp
Frakkar eru komnir með sex stig í milliriðli 1 á EM í Póllandi eftir stórsigur á Króatíu í dag. Lokatölur 32-24, Frakklandi í vil.

Frakkar töpuðu fyrir Póllandi í lokaleik A-riðils en það virðist hafa vakið þá til lífsins því þeir hafa nú unnið tvo stórsigra í röð. Á fimmtudaginn rústaði liðið Hvíta-Rússlandi, 34-23, eftir að hafa verið 20-5 yfir í hálfleik og í dag urðu Króatar fyrir barðinu á franska liðinu.

Leikurinn var jafn framan og eftir rúmlega 20 mínútur var staðan 10-9, Frökkum í vil. En Evrópumeistararnir gáfu í á lokakafla fyrri hálfleiks og leiddu með sex mörkum í hálfleik, 16-10.

Frakkar gáfu ekkert eftir í seinni hálfleik, skoruðu sex af sjö fyrstu mörkum hans og komust 11 mörkum yfir, 22-11.

Eftir þetta var sigurinn aldrei í hættu en á endanum munaði átta mörkum á liðunum, 32-24.

Luc Abalo var markahæstur í liði Frakklands með sex mörk en Michael Guigou kom næstur með fimm mörk. Maður leiksins var hins vegar markvörðurinn Thierry Omeyer sem varði 16 skot í leiknum (40%) og skoraði auk þess eitt mark.

Domagoj Duvnjak skoraði fimm mörk fyrir Króata sem eru með fjögur stig í milliriðlinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×