Viðskipti innlent

Höfnuðu tilboði í hluti í Fáfni

Ingvar Haraldsson skrifar
Fáfnir rekur dýrasta skip Íslandssögunnar.
Fáfnir rekur dýrasta skip Íslandssögunnar. Mynd/Aðsend
Sjóðirnir Akur og Horn II, sem saman eiga meirihluta í Fáfni Offshore, höfnuðu í vikunni, tilboði í hluti sína í Fáfni. Heimildir Fréttablaðsins herma að Steingrímur Erlingsson, fyrrverandi forstjóri og stofnandi Fáfnis Offshore, hafi boðið í hlutina.

Íslenskir lífeyrissjóðir eru stórir hluthafar í bæði Akri, sem rekinn er af dótturfélagi Íslandsbanka og á 30 prósenta hlut í Fáfni, og Horni II, sem er rekið af dótturfélagi Landsbankans og á 23 prósenta hlut. Steingrími var sagt upp sem forstjóra í desember en hann á 21 prósents hlut í félaginu.

Jóhannes Hauksson, stjórnarformaður Fáfnis og framkvæmdastjóri Akurs, vildi ekki tjá sig um málið og bar fyrir sig trúnaði.

Fáfnir rekur dýrasta skip Íslandssögunnar, Polarsyssel, sem hefur verið í útleigu hjá sýslumanninum á Svalbarða hluta ársins, en það er eina verkefni Fáfnis. Fyrirtækið er með annað enn stærra og dýrara skip í smíðum, Fáfni Víking. Afhendingu skipsins hefur verið frestað nokkrum sinnum, nú síðast fram til ársins 2017.

Djúp kreppa ríkir í þjónustu við olíuiðnað en olíuverð hefur fallið um meira en 70 prósent frá sumrinu 2014. Búið er að leggja um 100 olíuþjónustuskipum í Noregi, um 15 prósentum flotans.


Tengdar fréttir

Fáfnir Offshore tapar 50 milljónum

Olíuvinnslufyrirtækið Fáfnir Offshore tapaði 3,5 milljónum norskra króna á síðasta ári, jafnvirði 50 milljóna íslenskra króna miðað við núverandi gengi.


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.