Sjóðirnir Akur og Horn II, sem saman eiga meirihluta í Fáfni Offshore, höfnuðu í vikunni, tilboði í hluti sína í Fáfni. Heimildir Fréttablaðsins herma að Steingrímur Erlingsson, fyrrverandi forstjóri og stofnandi Fáfnis Offshore, hafi boðið í hlutina.
Íslenskir lífeyrissjóðir eru stórir hluthafar í bæði Akri, sem rekinn er af dótturfélagi Íslandsbanka og á 30 prósenta hlut í Fáfni, og Horni II, sem er rekið af dótturfélagi Landsbankans og á 23 prósenta hlut. Steingrími var sagt upp sem forstjóra í desember en hann á 21 prósents hlut í félaginu.
Jóhannes Hauksson, stjórnarformaður Fáfnis og framkvæmdastjóri Akurs, vildi ekki tjá sig um málið og bar fyrir sig trúnaði.
Fáfnir rekur dýrasta skip Íslandssögunnar, Polarsyssel, sem hefur verið í útleigu hjá sýslumanninum á Svalbarða hluta ársins, en það er eina verkefni Fáfnis. Fyrirtækið er með annað enn stærra og dýrara skip í smíðum, Fáfni Víking. Afhendingu skipsins hefur verið frestað nokkrum sinnum, nú síðast fram til ársins 2017.
Djúp kreppa ríkir í þjónustu við olíuiðnað en olíuverð hefur fallið um meira en 70 prósent frá sumrinu 2014. Búið er að leggja um 100 olíuþjónustuskipum í Noregi, um 15 prósentum flotans.
Höfnuðu tilboði í hluti í Fáfni

Tengdar fréttir

Telur Fáfni geta misst eina verkefni sitt eftir uppsögn Steingríms
Bjarni Ármansson er ekki lengur stjórnarformaður Fáfnis en hann tók við starfinu síðasta sumar.

Íslandsbanki fjarlægði viðtal við forstjóra Fáfnis af vefsíðu sinni
Viðtalið var tekið út eftir að Steingrími Erlingssyni var sagt upp sem forstjóra Fáfnis.

Fáfnir Offshore tapar 50 milljónum
Olíuvinnslufyrirtækið Fáfnir Offshore tapaði 3,5 milljónum norskra króna á síðasta ári, jafnvirði 50 milljóna íslenskra króna miðað við núverandi gengi.