Skoðun

Jöfnuður er auðlind

Krafan um jöfnuð, réttlæti og samábyrgð er ekki klisja. Þetta grunnstef jafnaðarmanna um allan heim hefur lagt grunn að öflugustu velferðarsamfélögum veraldar, eins og á Norðurlöndum. Jafnaðarstefnan miðar að því að byggja upp samfélag af sömu umhyggju og við byggjum upp heimili. Því er ætlað að veita öryggi og vera skjól. Þess vegna hafði það ótvíræða þýðingu fyrir íslenskt samfélag að það skyldu hafa verið jafnaðarmenn sem héldu um stjórnartauma hin erfiðu ár eftir hrun. Á fyrstu fjórum árum eftir hrun náðu jafnaðarmenn á Íslandi að jafna lífskjör í landinu og leggja grunn að því góðæri sem við njótum nú. Vinstri stjórnin breytti skattkerfinu – og já, hækkaði skatta á þá hæst launuðu, en hlífði um leið láglaunahópunum og varði millitekjuhópinn. Stuðningur var aukinn við ungar barnafjölskyldur, barna- og húsaleigubætur hækkaðar og dregið úr skerðingum. Vaxtabætur voru stórhækkaðar og hundrað milljörðum varið til þeirra og barnabóta á kjörtímabilinu – meira en nokkur önnur ríkisstjórn hefur nokkru sinni látið af hendi rakna til þeirra hluta. Kaupmáttur lægstu launa var við lok kjörtímabilsins orðinn hærri en hann var í góðærinu og skattbyrðin lægri. Þegar ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur skildi við var helmingi minni ójöfnuður ráðstöfunartekna en árið 2007 þegar hann varð mestur. Vinstri stjórninni tókst það sem engri annarri ríkisstjórn hefur tekist, sem hefur lent í kreppu: Að verja kjör hinna lægst launuðu. Samhliða því að náðist að minnka halla ríkissjóðs úr 230 milljörðum í 3,6 milljarða á fjórum árum, lækka verðbólgu úr 18% í 4,5%, minnka atvinnuleysi um helming og ... verja velferðarkerfið. Það skiptir máli hverjir stjórna. Nei, krafan um jöfnuð er ekki klisja. Félagslegar rannsóknir hafa sýnt fram á að í samfélögum þar sem jöfnuður er í hávegum hafður er minna um öfga og glæpi. Jafnaðarstefnan vinnur gegn félagslegum vanda og andlegri vanlíðan. Hún vinnur gegn kynjamismunun og menntunarskorti. Jafnaðarstefnan stuðlar að almennri velmegun, sjálfbærni og minni sóun. Hún stuðlar að samheldni, gagnkvæmu trausti og mannvirðingu. Þannig samfélag vil ég.




Skoðun

Skoðun

Drasl

Hafþór Reynisson skrifar

Sjá meira


×