Innlent

Landsnet þarf að veita aðgang að gögnum

Sveinn Arnarsson skrifar
Háslpennulínur í Skriðdal.
Háslpennulínur í Skriðdal. Mynd/Sigurður Arnarsson
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur gefið út þann úrskurð að Landsneti sé skylt að veita Landvernd, samtökum um náttúruvernd, aðgang að skýrslu sem samin var fyrir fyrirtækið um háspennulínur í jörðu. Landvernd krafðist þess í apríl í fyrra að fá aðgang að skýrslunni.

Íslensk útgáfa skýrslunnar hafði verið birt á vef Landsnets. Hins vegar hafði ensku útgáfunni verið haldið leyndri fyrir almenningi. Sú skýrsla mun hafa verið mun ítarlegri og fræðilegri en sú íslenska og vildi Landvernd kynna sér efni skýrslunnar betur.

Landsnet féllst ekki á að veita Landvernd afrit af skýrslunni. Taldi Landsnet að í skýrslunni væri að finna upplýsingar er vörðuðu mikilvæga hagsmuni fyrirtækisins, því væri þeim óheimilt að veita almenningi aðgang að þeim upplýsingum. Einnig taldi Landsnet að þessi umrædda skýrsla væri ekki opinbert gagn heldur vinnugagn stofnunarinnar.

Forsvarsmenn Landverndar telja þetta leynimakk hvorki gott fyrir náttúruvernd í landinu né fyrir fyrirtækið sjálft því leyndin tefji uppbyggingu raforkukerfisins. „Fyrir nokkrum árum neitaði Landsnet að umhverfismeta árlega raflínuáætlun sína, kerfisáætlunina.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson
Ákvörðun umhverfisráðherra þurfti til að breyta því. Fyrirtækið hefur ítrekað neitað að umhverfismeta jarðstrengi þvert á lagaskyldur. Skipulagsstofnun, úrskurðanefnd umhverfismála og nú síðast Hæstiréttur hafa staðfest þetta, segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, framkvæmdastjóri Landverndar.

„Ofan á þetta bætist svo leyndarhyggja með gögn, samanber þetta mál og hin fræga kostnaðaráætlun fyrir jarðstrengi við Blöndulínu 3 sem reyndist týnd. Þessi jarðstrengjafælni Landsnets og vinnubrögð fyrirtækisins eru í mikilli andstöðu við náttúruvernd og vilja heimamanna. Þetta verður að breytast, nema fyrirtækið vilji áfram tefja eigin framkvæmdir í raforkukerfinu.“

Mikil átök eiga sér nú stað um uppbyggingu raforkukerfis Landsnets. Víða er uppi hávær krafa um að æ stærri hluti flutningskerfisins verði lagður í jörðu en Landsnet hefur iðulega talið það óraunhæft og of kostnaðarsamt. Hins vegar hafa náttúruverndarsamtök og heimamenn ekki fallist á þau rök Landsnets. 



Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 2. júní




Fleiri fréttir

Sjá meira


×