Innlent

Skilur ekki skriðukenningu um lúpínu

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Hreinn Óskarsson skógarvörður segir allan gróður almennt binda jarðveg.
Hreinn Óskarsson skógarvörður segir allan gróður almennt binda jarðveg.
„Ég átta mig ekki á hvernig lúpína á að geta aukið skriðuhættu,“ segir Hreinn Óskarsson, framkvæmdastjóri Hekluskóga, um tilgátu þessa efnis frá Ralf Trylla, umhverfisfulltrúa á Ísafirði.

Í Fréttablaðinu á fimmtudag í síðustu viku kom fram að Ralf er nú að kanna hvort verið geti að lúpína á bröttum stöðum geti aukið hættu á skriðum. „Þegar blotnar verður jarðvegurinn þungur og kannski lausari en venjuleg íslensk fjallabrekka,“ sagði Ralf meðal annars. „Ég er ekki sérfræðingur í skriðum en maður hefur séð skriður falla bæði þar sem er gróður og ekki gróður. Ef lúpína eykur skriðuhættu þá ætti annar gróður að gera það líka. Sem er reyndar ekki alveg samkvæmt bókinni því menn eru til dæmis að setja trjágróður upp í brekkur til að varna skriðum í útlöndum,“ segir Hreinn. „Maður veit að minnsta kosti að hlíðar eru yfirleitt stöðugri með gróðri heldur en án gróðurs.“

Hreinn ítrekar að almenna reglan sé sú að ef það er gróður og rótarkerfi í jarðvegi þá helst hann frekar á sínum stað. Þá eigi skriður oftast upptök sín hátt uppi á gróðursnauðum svæðum.

Sem dæmi um samspil skriðu og lúpínu nefnir hann skriðu sem féll á Laugarvatni árið 1963. „Hún byrjaði langt uppi í fjalli fyrir ofan allan gróður og skildi eftir sig sár sem lúpínan kom inn í og þar er nú kominn skógur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×